Þ að fer vel á því að þingmaðurinn sem kenndur er við tóma prinsa og páfa, Valdimar Leó Friðriksson IX. þingmaður suðvesturkjördæmis, standi nú utan almennra þingflokka. Það er orðið langt síðan eðalbornir áttu sinn fulltrúa á þingi og við hæfi að hann komi úr kjördæminu sem hýsir einu hirð landsins.
Valdimar Leó mun vonandi gefa kjósendum í suðvesturkjördæmi tækifæri til að njóta áfram krafta sinna í þingkosningunum í vor og ekki að efa að honum verður vel tekið. Hins vegar er einn hængur á. Samfylkingin gæti farið í sérframboð gegn Valdimar Leó í kjördæminu, þótt ekki sé útilokað að hún játi sig sigraða án framboðs. Það gæti tekið af honum fylgi.
Ef Samfylkingin lætur verða af klofningsframboðinu gegn Valdimar Leó mun hún hafa fullar hirslur fjár til að kynna frambjóðendur sína en Valdimar Leó ekki. Þingflokkarnir fimm sem eiga fulltrúa á þingi hafa nefnilega nefnd að störfum sem gera mun tillögu um að flokkarnir skammti sér mjög rausnarlegt framlag úr ríkissjóði. Öllum að óvörum munu þingflokkarnir fimm fallast á tillögur nefndarinnar og leiða þær í lög. Að tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni verður erindið afgreitt með hraði í jólaösinni til að koma í veg fyrir óþægileg umræðustjórnmál, sem reynst hafa flokknum vægast sagt illa. Jólagjöf flokkanna til sín frá hinum almenna manni verður nokkur hundruð milljónir króna.
Samkvæmt núgildandi lögum fá þingflokkar líka framlag úr ríkissjóði og samkvæmt sömu lögum er Valdimar ekki þingflokkur því hann er aðeins einn þótt Leó sé með í för.