Fimmtudagur 16. nóvember 2006

320. tbl. 10. árg.
Víkverja er byrjað að kvíða fyrir Alþingiskosningunum í vor um leið og honum hlakkar til að fá að nýta atkvæðisrétt sinn í lýðræðisríki.
– Víkverji Morgunblaðsins, 2. nóvember 2006.

H inn langmæddi maður, Víkverji, er byrjaður að kvíða fyrir komandi alþingiskosningum. Skýringin á kvíða hans er „pappírs- og auglýsingaflóðið sem á eftir að dynja á landsmönnum“, Víkverja til þrautar og armæðu. Lausn hans er sú, að sett verði „ný lög fyrir næstu Alþingiskosningar, lög sem banna auglýsingar flokkanna. Hver flokkur ætti einungis að fá að gefa út einn vænan bækling í hverju kjördæmi þar sem listi frambjóðenda kemur fram auk þeirra málefna sem flokkurinn leggur áherslu á.“ Það er „óþolandi að mati Víkverja að hann sem borgari þurfi að sitja undir öllum þessum auglýsingum í fjölmiðlum, þurfi að taka á móti símtölum frá atkvæðagráðugum stjórnmálamönnum og geti ekki ekið frjáls um landið án þess að mæta andlitsmyndum í risastærð út um allar trissur.“

Hugsanlega verður Víkverja að ósk sinni. Ef að þau furðulegu áform þeirra flokka, sem nú sitja á Alþingi, verða að veruleika, að banna einstaklingum og fyrirtækjum að styrkja stjórnmálaflokka að gagni, en láta stjórnmálastarfsemi þess í stað ganga fyrir ríkisfé til þeirra sem nú eru á þingi, þá getur alveg eins verið stutt í að sett verði takmörk fyrir möguleikum flokka til að koma sér og stefnu sinni á framfæri. Slíkar reglur ættu það einkum sameiginlegt að vera til þess fallnar að auka áhrif fjölmiðlamanna og eigenda fjölmiðlafyrirtækja, því þeir geta vitaskuld haldið úti fjölmiðlum sem fjalla um það sem eigendur og stjórnendur vilja, og geta ráðið því hvað kemst á dagskrá og til vitundar þorra fólks. Það eru fjölmiðlamenn og „stjórnmálaskýrendur“ sem græða mest á „reglum um fjármál stjórnmálaflokka“, enda eru það fjölmiðlamenn og stjórnmálaskýrendur sem árum saman hafa kvartað undan því að stjórnmálaflokkum hefur verið leyft að safna fé hjá stuðningsmönnum sínum og komast þannig undan einveldi fjölmiðlamanna.

Í nýafstöðum prófkjörum bar á því að fólk kvartaði yfir símaskilaboðum þar sem það var hvatt til að fara og kjósa Pétur og Pál til starfa. Þótti mörgum sem slík skilaboð, hringingar og bæklingar væru innrás í einkalíf og truflun. Vissulega má hafa samúð með því sjónarmiði en á móti kemur að það ætti að geta verið fagnaðarefni fyrir fólk að fá þó einhverjar upplýsingar – og möguleikann á að afla frekari upplýsinga – um stefnu og áherslu þeirra sem gætu komist á þing ef ekkert yrði að gert. Sumir fjölmiðlar virtust hafa áhyggjur af símaskilaboðum sem fólk var ónáðað með, en ef það er of mikið ónæði, hvað má þá segja um þann sið að bera inn í hús fólks, flesta ef ekki alla daga vikunnar, dagblöð sem enginn á heimilinu hefur beðið um, en flytja alls kyns skoðanir og sjónarmið sem heimilismenn vilja kannski ekki að otað sé að þeim dag hvern? Eitt er að slík blöð liggi frammi þar sem menn geta nálgast þau ef þeir svo kjósa, rétt eins og vefsíða sem stendur öllum opin. En það er auðvitað annar hlutur að bera blaðið óbeðið heim til fólks, rétt eins og vefsíðu sem send yrði í pósti dag hvern á allar tölvur landsins. Ekki hafa menn talað fyrir að banna slíka óumbeðna heimsendingu á blöðum, og í því ljósi hljóma hugmyndir um að banna bæklingaútgáfu stjórnmálaflokkanna, sem stendur að jafnaði í eina til tvær vikur, annað hvert ár, sem hrein bilun.

Eins og vitnað var til að ofan, er Víkverji Morgunblaðsins farinn að kvíða alþingiskosningunum. Eða, svo hans orðalag sé notað, þá er honum farið að kvíða fyrir, alveg um leið og honum hlakkar til að nýta atkvæðisréttinn. Að því sögðu er lokið þátttöku Vefþjóðviljans í degi íslenskrar tungu að þessu sinni.