Á vef Morgunblaðsins í gær var greint frá því að stjórn Samtaka iðnaðarins hefði sent frá sér ályktun vegna kaupa Íslandspósts á Samskiptum. Í ályktuninni ítrekaði stjórnin þá stefnu sína að ríkið dragi sig af markaði þar sem rekstur sé allt eins vel eða betur kominn í höndum einkaaðila. Í ályktuninni segir ennfremur: „Samtök iðnaðarins hafa margoft varað við vaxandi tilhneigingu til aukinnar ríkisvæðingar. Ein birtingarmynd hennar er sú að ríkisfyrirtæki, sem breytt hefur verið í hlutafélög en eru að fullu í eigu ríkisins og njóta jafnvel sérréttinda eða einkaleyfa að lögum, færa út kvíarnar og sækja inn á ný svið t.d. með því að kaupa starfandi fyrirtæki á markaði. Kaup ríkisfyrirtækja á einkafyrirtækjum með þessum hætti eru til þess fallin að raska eðlilegri samkeppni og við því verður að sporna.“
|
Enginn vafi leikur á því að Samtök iðnaðarins munu á næstunni krefjast þess að losna við ríkisstyrkinn. |
Full ástæða er til að taka undir þessi sjónarmið Samtaka iðnaðarins. Ríkið eða fyrirtæki í eigu þess eiga ekki að færa út kvíarnar heldur þvert á móti að draga saman seglin eins og frekast er unnt. Ef vilji er fyrir hendi til að draga úr umsvifum ríkisins má á tiltölulega einfaldan hátt losa það út úr flestum þeim verkefnum sem það sinnir nú. Eins og Samtök iðnaðarins benda á er ekki eðlilegt að ríkið reki fyrirtæki á markaði. Ríkið á af sömu ástæðu að skipta sér sem allra minnst af atvinnulífinu yfirleitt. Það á ekki að keppa við einkaaðila og það á ekki heldur að styrkja einkaaðila í atvinnulífinu. Það á einfaldlega að láta þá í friði og láta þá gera það sem þeir gera best, það er að segja framleiða þá vöru og þjónustu sem fólk sækist eftir.
Sömu sögu er að segja um hóp einkaaðila, félagsskap þeirra eða samtök. Ríkið á ekki frekar að keppa við eða styrkja hóp einkaaðila en þá einkaaðila sem standa einir sér. Undir þetta geta Samtök iðnaðarins vafalítið tekið. Þess vegna mun það ekki koma nokkrum manni á óvart þegar Samtök iðnaðarins birta næstu ályktun sína, en Vefþjóðviljinn telur víst að hún muni fjalla um stuðning ríkisins við ákveðna aðila í atvinnulífinu. Þeir aðilar sem um ræðir eru þeir sem standa að Samtökum iðnaðarins, en þessi samtök eru sem kunnugt er rekin fyrir skattfé almennings.
Öruggt má telja að Samtök iðnaðarins sjái í hendi sér að í ljósi afstöðu sinnar til þátttöku ríkisins í atvinnulífinu geti þau ekki lengur starfað í skjóli ríkisstyrks. Það er þess vegna hafið yfir vafa að þau munu á allra næstu dögum senda frá sér ályktun þar sem þess er krafist að ríkið hætti að skekkja samkeppnisstöðu á markaði með því að styrkja þessi hagsmunasamtök atvinnulífsins.