Helgarsprokið 5. nóvember 2006

309. tbl. 10. árg.

Í fyrradag svaraði Ragnar Árnason prófessor í hagfræði þingmanninum Merði Árnasyni með grein í Morgunblaðinu. Tilefnið var grein Marðar daginn áður um skýrslu um hagfræði loftslagsbreytinga sem bresk stjórnvöld pöntuðu, Stern-skýrsluna svokölluðu. Í greininni veittist Mörður að Ragnari fyrir ályktanir sem hann dró út frá hagfræðinni í skýrslunni. Skýrslan var af því tagi sem heimsendaspámenn senda frá sér með reglulegu millibili og tekst jafnan að koma á forsíður dagblaða og fremst í fréttatíma, eins og flestir urðu líklega varir við. Tímasetningin nú ræðst vafalítið af væntanlegum fundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem hefst á morgun, en svokallaðir umhverfisverndarsinnar leggja mikið upp úr því að hafa áhrif á niðurstöður slíkra funda með ýmis konar áróðri eða hávaðasömum mótmælum fyrir fundina eða meðan fundirnir standa yfir.

„Sendiherrarnir 24 hafi komist að þeirri niðurstöðu að miklu frekar ætti að verja fjármunum til að bæta heilsufar, næringu, vatn, hreinlæti og menntun en að setja þá í baráttuna gegn loftslags-breytingum.“

Ragnar nefnir í grein sinni að í Stern-skýrslunni séu vangaveltur um 5-20% minnkun einkaneyslu á næstu 100-200 árum vegna loftslagsbreytinga, og finnur að því að Mörður skilji ekki að þessar tölur séu sem dropi í hafið miðað við væntanlegan hagvöxt á sama tímabili. Ragnar bendir á að hagvöxtur undanfarna öld hafi verið 2-3% árlega og ekkert bendi til annars en hann haldi áfram með að minnsta kosti sama hraða. „Þetta þýðir nálægt sjöföldun landsframleiðslu á næstu 100 árum og aðra sjöföldun á næstu 100 árum eftir það. Í samanburði við þessar stærðir er hið hugsanlega tjón vegna loftslagsbreytinga, sem Sternskýrslan og Mörður gera svo mikið úr, auðvitað hverfandi,“ skrifar Ragnar.

Og hann heldur áfram: „Mörður skilur heldur ekki hvaðan þessi hagvöxtur eigi að koma. Í því sambandi má benda honum á að í svartsýnisspám Stern-skýrslunnar er einmitt gert ráð fyrir stórauknum útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Sú aukning getur auðvitað ekki átt sér stað nema með hagvexti eftir svipuðum farvegum og í fortíðinni. Hitt er annað mál, að hagvöxtur þróaðra ríkja í seinni tíð hefur að nokkru snúið af þessari gömlu braut og leiðir nú af sé miklu minni umhverfisspjöll en áður var. Vonandi er að sú þróun haldi áfram.“

Ragnar hafnar því ekki að mengun andrúmsloftsins og hugsanleg hlýnun jarðar sé alvarlegt vandamál, það sé hins vegar ekki líklegt til árangurs að rjúka upp til handa og fóta með kröfum um „afskaplega dýrar og vanhugsaðar aðgerðir í hvert skipti er nægilega krassandi skýrsla um málið kemur út“. Nær væri að hans áliti að gefa vísindamönnum tækifæri til að vega og meta innihald þessarar nýju skýrslu. Sumir stjórnmálamenn, og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar, sem gera mikið út á fagleg sjónarmið þegar það hentar, geta hins vegar ekki hugsað sér að fjallað verði af yfirvegun um loftslagsmálefni.

Ragnar segir einnig að með þessu sé hann síst að gera lítið úr umhverfisvandanum, en bætir við: „Það má hins vegar ekki gleyma því að fyrir brotabrot af þeim upphæðum sem Mörður vill verja til að afstýra hugsanlegri hitnun jarðar með mikilli óvissu um árangur og afleiðingar, væri með nánast fullri vissu og á örfáum árum unnt að bægja frá þróunarlöndunum sjúkdómum og örbirgð, sem á degi hverjum leggja hundruð manna í valinn og valda miklum raunverulegum hörmungum. Kemur nú ekki til greina að leggja meira af mörkum til þessa sannanlega brýna viðfangsefnis áður en ráðist er til atlögu við hugsanlega hitnun jarðar?“

Gagnrýni annars vísindamanns, Björns Lomborgs, er á svipuðum nótum. Lomborg skrifar um skýrsluna í The Wall Street Journal og telur heldur lítið til hennar koma. Hann segir að notuð séu óvönduð vinnubrögð við gerð skýrslunnar og nefnir dæmi þar um, meðal annars um augljóst innra ósamræmi. Þá sé skýrslan afar einhliða, því að hún velji úr heimildum það sem henti niðurstöðunni, í stað þess að leita að því sem réttast er. Ennfremur nefnir Lomborg dæmi um notkun skýrsluhöfundar á vafasömum talnagildum til að ná fram þeirri niðurstöðu sem skýrslan gefur, ýmist allt of háum eða allt of lágum gildum.

Lomborg segir að flestir hagfræðingar hafi verið undrandi á háu mati skýrsluhöfundar á tjóni af völdum hlýnunar andrúmsloftsins. Hann nefnir til sögunnar líkan Williams Nordhaus, prófessors við Yale háskóla, sem skýrsluhöfundur telji sjálfur að nálgist hlutina með svipuðum hætti og gert er í skýrslunni og Lomborg segir einn virtasta loftslagshagfræðing veraldar. Nordhaus telur að ef farin yrði sú leið sem mælt er með í skýrslunni, að grípa til aðgerða sem myndu koma í veg fyrir að þéttleiki koldíoxíðs í andrúmsloftinu yrði meiri en 550 ppm, mundi það lækka hlýnun andrúmsloftsins úr 2,53 °C í 2,42°C eða um 0,11°C. Lomborg segir það skiljanlegt að skýrsluhöfundur hiki við að kynna niðurstöður á borð við þessa. Samkvæmt líkani Nordhaus myndi landsframleiðsla í heiminum lækka um 3% ef ekkert yrði gert næstu öldina til að draga úr hlýnun, en í nýju skýrslunni er reynt að sýna fram á að kostnaðurinn sé meiri en margar fyrri rannsóknir hafi sýnt.

Skýrsluhöfundur fellst að sögn Lomborgs á tölur Nordhaus, það er að segja að hlýnun um 4°C mundi kosta um 3% af landsframleiðslu. Höfundurinn geri ráð fyrir að við höldum áfram að dæla út koldíoxíði langt inn í 22. öldina, sem Lomborg telur ósennilegt, bæði vegna lækkandi verðs á öðrum orkugjöfum og ekki síður ef spárnar mundu rætast í lok þessarar aldar. Skýrsluhöfundur meti það svo að hlýnun um 8°C á 9. áratug 22. aldarinnar, sem sagt eftir um 180 ár, geti kostað 11-14% af landsframleiðslu.

Lomborg rekur síðan hvernig skýrsluhöfundur fær ótrúlega háan reiknaðan kostnað vegna loftslagsbreytinga bæði nú og síðar, meðal annars með því að nota agnarsmáan afvöxtunarstuðul til að núvirða kostnaðinn. Og hann segir að jafnvel þótt 11% kostnaður sé mjög ýktur, láti skýrsluhöfundur ekki þar við sitja. Hann geri ráð fyrir að kostnaðurinn geti orðið enn hærri en loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna – sem er ekki þekktast fyrir að gera lítið úr ógninni af loftslagsbreytingum – geri ráð fyrir. Hann reikni með öðrum orðum með enn verri niðurstöðu en verstu niðurstöðunni sem hingað til hafi verið gert ráð fyrir. Þannig hækki hann kostnaðinn úr 11% í 15% af landsframleiðslu. Síðan gefi hann sér að fátækir séu vanmetnir og hækki kostnaðinn úr 15% í 20%.

Þessi kostnaður, mun verri en versta tilfellið og þriðjungur til viðbótar, er það sem slegið hefur verið upp í fjölmiðlum. Lomborg segir 3% samdrátt landsframleiðslu árið 2100 vera það sem flestir hagfræðingar telji líklegt. Með vafasömum forsendum og aðferðum sé talan hins vegar blásin út í nýju skýrslunni.

Í Stern-skýrslunni er því haldið fram, að sögn Lomborgs, að kostnaðurinn við að gera ekkert gegn loftslagsbreytingum sé 20% af landsframleiðslu, en kostnaðurinn af því að gera eitthvað sé aðeins 1%. Lomborg telur hvort tveggja fjarstæðu og bendir á, líkt og Ragnar Árnason í grein sinni, að vilji menn setja fjármuni nú í að bæta hag fólks í heiminum séu mörg mun brýnni verkefni sem huga ætti að. Hann nefnir að fyrir aðeins brot af þeim kostnaði við fyrirbyggjandi aðgerðir sem lagður er til í Stern-skýrslunni megi að mati Sameinuðu þjóðanna leysa alla brýnustu grunnþjónustu í heiminum, svo sem hreint drykkjarvatn, heilbrigðisþjónustu og menntun.

Björn Lomborg getur þess í lok greinar sinnar að í New York um síðustu helgi fékk hann 24 sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, meðal annars frá Kína, Indlandi og Bandaríkjunum, til að svara spurningu um hvernig ætti að forgangsraða brýnustu verkefnunum sem glímt væri við í heiminum. Sendiherrarnir 24 hafi komist að þeirri niðurstöðu að miklu frekar ætti að verja fjármunum til að bæta heilsufar, næringu, vatn, hreinlæti og menntun en að setja þá í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Spurningin til sendiherranna var hluti af verkefni sem kallað er Copenhagen Consensus og ætlað er að stuðla að því að fjármunum sé veitt til þeirra þarfa sem brýnastar eru. Þetta er endurtekning á tilraun sem Lomborg gerði fyrir tveimur árum, þegar hann fékk átta hagfræðinga, þar af fjóra nóbelsverðlaunahafa, til að raða brýnustu vandamálum heimsins með sama hætti. Niðurstaðan þá varð svipuð, hagfræðingarnir töldu að þegar tekið væri tillit til kostnaðar og ábata ætti barátta gegn loftslagsbreytingum að vera í síðasta sæti. Þá eins og nú höfðu fjölmiðlar meiri áhuga á heimsendaspánum.