H eldur auman kattarþvott bar fyrir augu þeirra sem lásu miðopnu Morgunblaðsins í gær. Þar ritaði grein Kjartan Ólafsson, sem meðal annars var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins á árunum 1962-1968, formaður Útgáfufélags Þjóðviljans árin 1968-1972 og ritstjóri blaðsins á árunum1972-1983 fyrir utan árin 1978-1979 þegar hann sat á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið. Kjartan má eiga það að hann viðurkennir að sósíalistar á Íslandi hafi fengið umtalsverða fjármuni frá bandamönnum sínum í Moskvu á þessum árum, en kannast hins vegar ekkert við að hafa vitað af þessu, hvað þá tekið þátt í að biðja um eða þiggja slíkt fé. Nú má svo sem vera að maður sem gegndi slíkum trúnaðarstöðum hafi ekkert vitað um styrki erlendra harðstjóra við félaga hans hér á landi. Hann verður ekki rengdur um það hér, þó að telja megi með miklum ólíkindum að hann skuli aldrei hafa orðið var við neitt slíkt. Þetta er svo sem ekki heldur neitt aðalatriði, hitt skiptir talsverðu máli hvernig Kjartan reynir að gera lítið úr þessum ógeðfelldu samskiptum við Kreml.
Hluti af skýringunni að sósíalistar hér á landi þáðu fé harðstjóranna í Kreml er sá, ef marka má Kjartan, að Kristinn E. Andrésson, sem líkt og Kjartan var einn af forystumönnum sósíalista, hafi á efri árum verið orðinn sjúkur og dómgreind hans orðin „alvarlega skert vegna mikillar lyfjanotkunar“. Með þessu kýs Kjartan að afgreiða háar greiðslur sovéskra sósíalista til Kristins. Einar Olgeirsson var enn einn forystumaður þessa vafasama hóps og önnur útskýring Kjartans á því að stórfé var fengið frá Kreml er sú, að Einar og Kristinn hafi báðir verið hugsjónamenn. „Þeir voru eldheitir ættjarðarvinir en líka þvílíkir alþjóðasinnar að þeir gátu vart hugsað sér að starfa í flokki sem ekki hefði allnáin tengsl við heimshreyfingu.“ Það var sem sagt lyfjanotkun og alþjóðavæðing hugarfars Kristins og Einars sem leiddu þá út í að þiggja fé sem enginn eða nánast enginn annar af forystumönnum sósíalista vissi af.
Kjartan reynir líka að færa rök fyrir því að féð frá harðstjórunum í Moskvu hafi „aðeins“ farið í rekstur húss Máls og menningar, eða Rúblunnar eins og sú bygging var iðulega kölluð, en sú nafngift vakti ekki frekar en annað nokkrar grunsemdir hjá Kjartani. En hverju breytir nú hvort féð fór í hús útgáfufélags sósíalista við Laugarveg eða rann með öðrum hætti inn í hreyfingu þeirra? Það breytir vitaskuld engu. Mál og menning var, auk Þjóðviljans, eitt helsta áróðurstæki þeirra sem vildu bylta stjórnskipulaginu hér á landi og taka upp annað sem líktist meira því sem ríkti í Sovétríkjunum. Þar fyrir utan veit enginn hvort eða hvert féð fór út úr Rúblunni, en það breytir heldur engu. Féð barst frá stjórnvöldum í Sovétríkjunum til sósíalista á Íslandi og fór þangað sem þeir vildu. Þetta er aðalatriðið. Hvort Kjartan gekk um með bæði augun lokuð á þessum árum og varð ekki var við neitt sem gerðist í kringum hann hefur ósköp litla þýðingu og skiptir litlu um meginatriði málsins.
Meiru varðar að Kjartan er við sama heygarðshornið og íslenskir sósíalistar hafa verið lengi. Hann kallar eftir því að rannsökuð verði jöfnum höndum samskipti íslenskra stjórnmálamanna við stjórnvöld í Sovétríkjunum annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar á árum kalda stríðsins, rétt eins og hægt sé að líkja þessu saman. Hann lætur eins og hann skilji ekki að sumir íslenskir stjórnmálamenn áttu samskipti og samvinnu við harðstjóra kommúnista sem vildu sölsa Ísland og önnur vestræn ríki undir sig. Aðrir áttu samskipti við stjórnvöld í þeim ríkjum sem vildu forða okkur og öðrum frá slíkum örlögum. Það er mikil ósvífni að reyna enn í dag að leggja þetta að jöfnu.