Það er gaman að æsingnum vegna greiðslna Knattspyrnusambands Íslands til leikmanna karla- og kvennalandsliðsins. Karlarnir munu fá hærri greiðslur en konurnar og yfir því eru ýmsir mjög æstir þessa dagana. Meira að segja tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir sér stutt frí frá prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar til að skrifa grein um málið svo afstaða hennar yrði loksins lýðum ljós. Eins og vænta má, þá heyrist í umræðunni talað um sömu laun fyrir sömu vinnu, almenn jafnréttismál og sumir vilja blanda stjórnarskrá lýðveldisins í málið í þeirri trú að hún segi eitthvað um mál eins og þetta. Sem hún vitanlega gerir ekki.
En þessi umræða er að vissu leyti upplýsandi. Meginatriðið í máli eins og þessu, ætti auðvitað að vera það að einkaaðilar, til dæmis knattspyrnusamband og knattspyrnumenn, eiga að vera frjálsir að því að semja um kaup og kjör. Nái einn launþegi betri samningi en annar, þá sé frá almennu sjónarmiði enginn réttur brotinn á þessum öðrum. En fleira er hins vegar athyglisvert við þessa nýjustu deilu. Hún varpar nefnilega svolitlu ljósi á frasann „sömu laun fyrir sömu vinnu“.
Því er oft haldið fram að hópar starfsmanna vinni sama starf, séu jafn hæfir og eigi þess vegna sjálfkrafa að hafa sömu laun. Þeir sem þessu halda fram, þeir virðast horfa fram hjá því að það eru engir tveir starfsmenn í raun jafn hæfir. Starfsmenn geta haft sambærilega menntun, starfsreynslu eða önnur mælanleg atriði, en þeir verða áfram ólíkir menn með ólíka hæfileika. Menn geta haft sama prófið en verið gerólíkir að öðru leyti. Einn er fljótur að setja sig inn í nýja hluti, annar gleymir aldrei neinu. Einn er ætíð fús til að vinna frameftir en annar leggur meira upp úr því að eiga góðan frítíma. Einn er skemmtilegur og þægilegur í samstarfi, annar einlægt með kjaft. Það eru engir tveir starfsmenn starfsmenn eins. Það er afar sjaldgæft að finna megi starfsmenn sem vinna „sama starfið“ en fá ekki sömu laun. Og svo skýrt dæmi sé tekið. Það er ákveðið starf að spila knattspyrnu í 90 mínútur gegn greiðslu. Það er hins vegar ekki svo að allir sem það gera séu vinnuveitanda sínum jafn verðmætir. Það er ekkert sjálfkrafa óréttlæti fólgið í því að landsliðskonurnar í knattspyrnu, sem allar sinna vafalaust vönduðu starfi fyrir Knattspyrnusambandið, fái ekki sömu greiðslu og Eiður Smári Guðjohnsen fær fyrir „sama starf“.
Varla þarf að taka fram, að látlausar kannanir sem sýna eiga fram á „kynbundinn launamun“ taka ekki á þessum atriðum. Fæstar taka einu sinni tillit til mismunandi vinnutíma. Best var vitaskuld vísindaleg könnun viðskiptaháskólans á Bifröst á launum fyrrum nemenda sinna, en í henni var að vísu ekki tekið tillit til þess hvaða störf var um að ræða, hvaða ábyrgð fylgdi þeim, hve langur starfsaldur hvers var eða hvort um hlutastarf eða fullt starf var að ræða. Slíkra stórfelldra galla á könnunum er að vísu sjaldan getið þegar sagt er frá niðurstöðunum eða hneykslast á þeim á fundum og í kröfugöngum. En það er mikilvægt að fólk átti sig á því, að það eru einfaldlega engar áreiðanlegar heimildir til um þann „kynbundna launamun“ sem sumir virðast geta talað um ár eftir ár. Má um þetta vísa til fróðlegrar greinar dr. Helga Tómassonar tölfræðings, sem birtist á sínum tíma í 2. hefti Þjóðmála í fyrra, en það hefti má eins og önnur kaupa stakt í bóksölu Andríkis.