S amfylkingin í suðvesturkjördæmi heldur prófkjör á næstunni. Í reglum flokksins um prófkjörið er lagt bann við „auglýsingum“. Þetta er væntanlega gert í tvennum tilgangi; annars vegar að forða því að fjársterkustu frambjóðendurnir geti auglýst mest og hins vegar að draga úr kostnaði við framboðin. Það er þó ekki sjálfgefið að þessi markmið náist. Reglurnar eru eftirfarandi:
1. Frambjóðanda og stuðningsfólki hans er óheimilt að auglýsa/kaupa auglýsingar á flettiskiltum, í dagblöðum, tímaritum, útvarpi, sjónvarpi og netmiðlum.
2. Frambjóðanda og stuðningsfólki hans er heimilt að skrifa greinar í blöð, setja upp heimasíðu, hringja í og heimsækja kjósendur og senda netpóst. 3. Frambjóðandi má kynna sig með því að gefa út bæklinga og dreifa þeim í kjördæminu. 4. Leiki vafi á framkvæmd þessara reglna skal frambjóðandi leita til stjórnar kjördæmisráðs. |
Þeir sem tekið hafa þátt í prófkjörsbaráttu vita að auglýsingakostnaður er langt frá því að vera eini kostnaðurinn sem máli skiptir. Til að mynda má gera ráð fyrir að útgáfa bæklings og dreifing á alla flokksbundna sjálfstæðismenn í Reykjavík hafi kostað rúma 1 milljón króna í prófkjöri þeirra um síðustu helgi. Það er hægt að fá nokkrar heilsíður í blöðunum fyrir þann pening. Símakostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda og sömuleiðis laun þeirra sem hringja út ef sú þjónusta er keypt. Laun starfsmanna á kosningaskrifstofum og leiga á húsnæði geta einnig vegið þungt. Auglýsingabann í fjölmiðlum og á flettiskiltum kemur því ekki í veg fyrir að hægt sé að nota peninga í prófkjöri, kynningin og peningarnir finna sér bara annan farveg.
Menn geta hins vegar velt því fyrir sér hvernig staðan væri ef tækist að setja á auglýsingabann sem virkaði og væri ekki svona hálfvelgja eins og Samfylkingin býður upp á í suðvesturkjördæmi. Ýmsir myndu sjálfsagt fagna því. Þá myndi hins vegar blasa við að fjölmiðlar hefðu allt vald um það hvaða frambjóðendur fengju kynningu og hverjir ekki. Auglýsingar víkka þó þann hóp sem á kost á kynningu í fjölmiðlum. Sjálfsagt þykir mörgum það miður geðfellt að frambjóðendur leiti styrkja hjá fyrirtækjum til að greiða fyrir auglýsingarnar. En með auglýsingabanni er þessum styrktarfyrirtækjum í raun bara fækkað niður í fjölmiðlana sem eru þá farnir að hafa fáránlegt úrslitavalda um hverjir fá kynningu.