P rófkjör flokkanna eru nú á næsta leyti og margir sem vilja kynna sig og halda sínu nafni á lofti eins og skiljanlegt er. Sumir tilkynna að þeir hafi verið hleraðir fyrir rúmum áratug, þó þeir hafi að vísu ekki séð ástæðu til að greina frá svo hversdagslegum hlutum fyrr en nú, en aðrir kynna fremur afstöðu sína til ýmissa málefna. Einn þeirra sem nú berst í prófkjöri er Bjarni Harðarson, fyrrverandi ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins sem sækist eftir sæti á lista Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi. Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála, sem mikla athygli hefur vakið undanfarið vegna forvitnilegrar greinar Þórs Whiteheads um öryggismál, skrifar Bjarni snaggaralega grein um hina lofuðu bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandið.
Skemmst er frá því að segja að Bjarni er fjarri því að vera eins hrifinn af Draumalandinu og margir þeir sem á bókina hafa minnst opinberlega. Bjarni segist hafa „átt orðastað við marga aðdáendur Andra Snæs í sumar en fólki þessu til hróss skal tekið fram að fæstir höfðu lesið bókina. Þeim sem tekst að halda aðdáun sinni aftur fyrir 77. blaðsíðu ættu aftur á móti að lesa bókina aftur og kannski að æfa sig almennt í bóklestri.“ Raunar telur Bjarni ekki útilokað að Draumalandið sé hugsað sem skrýtla fremur en bók með boðskap: „Höfundur nær snilldartökum á þessu viðfangsefni sínu þegar hann rökstyður að öll hugsanleg raforkuframleiðsla Íslendinga, um 30 terawattstundir, sé til einskis þar sem hún verði aldrei nema 50 % af engu! Jú, í bandarískri tölfræði finnur höfundur að af 110 terawattstundum sem fara til allra heimilistækja í Bandaríkjunum eyðist 60 % af orkunni þegar tækin eru ekki í gangi. Sá sem framleiði eitthvað innan þessara 60 % sé þessvegna að gera ekki neitt, segir Andri Snær.“
Ekki er nú víst að Draumalandið sé hugsað sem skrýtla. Að minnsta kosti virðist höfundi hennar talsvert niðri fyrir þegar rætt er við hann um bókina og þau málefni sem þar er fjallað um. Grein Bjarna Harðarsonar um hana er hressandi eftir allt lofið sem Draumalandið hefur verið ausið. Höfundurinn hefur verið hafinn til skýja fyrir hugsun sína, en Bjarni Harðarson segir að svo virðist sem Andri sé „haldinn þeim útbreidda misskilningi að telja velmegun Vesturlanda náttúrulögmál.“ Bjarni varar við þeirri oftrú á framtíð íslensku þjóðarinnar sem hann telur sig finna mikið af í Draumalandinu
þar sem höfundur sér í hillingum þá veröld þar sem ráðamenn hættu að hugsa um ál en hátæknifyrirtæki myndu þess í stað blómstra. Við gætum haft hér arkitektana að hinu nýja World Trade Centrer, 300 manna tölvuvinnustað sem hannar nýtt stýrikerfi í Airbus þotur og rammíslenska Geimferðastofnun. Allt er þetta möguleiki en það þarf þá meira til en að ráðamenn hér hættu að hugsa um nýtingu náttúruauðlinda sem eru greinilega frekar hallærislegar. Heimurinn utan Íslands þarf að vera fullur af hálfvitum. Eða hvað annað getur orðið til að við einir þjóða getum lifað af viti okkar einu meðal aðrir strita ofan í okkur lífsnauðsynjar, – allt frá rúsínum til álklumpa í fyrrnefndar Airbus-þotur? Og Íslendingar vitaskuld allir ofurmenni klyfjaðir ómótstæðilegu hugviti. Hugmyndin um að hér lifi allir af viti sínu minnir alltaf hálf óþægilega á falskan draum millistríðsáranna um að hér í norðrinu búi betra og fullkomnara fólk. En seint held ég að heimurinn nenni að borga fyrir mitt vit og veit um nokkra fleiri en mig sem eiga þar af litlu að miðla. |