P rófessor Edmund S. Phelps við Columbia háskóla í Bandaríkjunum fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði í síðustu viku. Nóbelsverðlaunin í hagfræði eru að vísu ólík öðrum Nóbelsverðlaunum að því leyti að þau eru ekki veitt að ósk Alfreðs Nóbels heldur veitir seðlabanki Svíþjóðar þau í minningu Nóbels. En þau eru engu að síður veitt í samstarfi við Konunglegu sænsku vísindaakademíuna og þjóna að flestu leyti sama tilgangi og önnur svokölluð Nóbelsverðlaun.
„Hann ber saman þrjú stóru hagkerfi meginlandsins og Bandaríkin og segir að framleiðni á vinnustund sé lægri á meginlandinu en í Banda-ríkjunum.“ |
Það er ef til vill ekki hægt að segja að það sé tilgangur slíkra verðlauna, en þó ein megináhrif þeirra, að þau auðvelda almennum áhugamönnum að átta sig á því hverjir eru meðal helstu fræðimanna á viðkomandi sviði. Að því leyti hafa þau sömu áhrif og prófgráður, sem leysa vandamál sem hefur einmitt í auknum mæli verið veitt athygli á sviði hagfræðinnar. Í tilviki prófgráðunnar þá hjálpar hún vinnuveitendum val á starfsmönnum. Það er alls ekki víst að sá sem er með mestu prófgráðuna eða hæstu einkunnina sé best fallinn til að sinna tilteknu starfi. Prófgráða getur engu að síður auðveldað fyrirtækjum val á starfsmönnum með því að fækka í þeim hópi sem velja þarf úr. Prófið segir þannig ekki endilega hvað menn kunna og geta, heldur ef til vill frekar að menn geta lært nýja hluti, nýtt sér þekkinguna með tilteknum hætti og hafa til að bera þá einbeitingu og aga sem þarf til að ljúka prófgráðunni. Sem eins og flestir vita er alla jafna fremur þreytandi, langdregið og leiðinlegt verkefni. Prófgráðan segir í raun ósköp lítið, en er stundum skásta leiðin til að velja úr hópi umsækjenda. Oft væri að vísu betra að fara eftir einhverju allt öðru og oft missa fyrirtæki af góðu fólki af því að það uppfyllir ekki misjafnlega gagnleg formskilyrði. Það getur samt lækkað kostnað að fara þá leið að notast við prófgráðuna í stað þess að fara einhverja flóknari leið, þó að hún kunni að vera betri, sérstaklega ef ekki er horft til kostnaðar.
Sama á sem sagt við um verðlaun á borð við Nóbelsverðlaunin, bæði þessi hefðbundnu og Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Þau hjálpa fólki að velja úr hópi „umsækjenda“. Það er að segja, sá sem vill kynna sér það sem helstu hagfræðingar heimsins hafa að segja, getur horft sérstaklega til þeirra sem hafa fengið Nóbelsverðlaunin. Það er alls ekki fullkomið úrtak hagfræðinga og varasamt að einblína á einn hóp af þessu tagi, en þetta er samt sem áður ein viðmiðun sem hafa má til hliðsjónar og getur lækkað kostnað áhugasamra við að afla sér upplýsinga um helstu sjónarmið sem hagfræðingar halda fram á hverjum tíma. Ja, eða ef til vill öllu heldur helstu sjónarmið sem núlifandi hagfræðingar hafa haldið fram um ævina. Þær rannsóknir sem Phelps fær verðlaunin fyrir núna eru til að mynda aðallega frá sjöunda áratug síðustu aldar og rannsóknir hans eftir það hefðu tæplega dugað honum til Nóbelsverðlauna.
Nú, en þá má í framhaldi af þessum ónauðsynlega útúrdúr nefna að rannsóknirnar hafa að minnsta kosti að hluta til fengið verðlaun áður, því að þegar Milton Friedman fékk verðlaunin árið 1976 var það fyrir gagnrýni á viðtekin viðhorf um að hægt væri að minnka atvinnuleysi með því að auka verðbólgu, og öfugt. Þessum tengslum er lýst með Phillips-kúrfunni, en Friedman og Phelps sýndu á sjöunda áratugnum fram á að sambandið væri ekki eins og lýst er með Phillips-kúrfunni og þetta varð meðal annars til að breyta viðhorfum seðlabanka, stjórnmálamanna og jafnvel almennings til verðbólgu og atvinnuleysis. Þolinmæði gagnvart verðbólgu minnkaði, sem hafði til að mynda þær afleiðingar að í tíð Ronalds Reagans í stóli forseta Bandaríkjanna og Pauls Volckers í stóli seðlabankastjóra Bandaríkjanna náðist verðbólgan niður eftir mikið atvinnuleysi og háa verðbólgu í forsetatíð Jimmys Carters.
Edmund Phelps ritaði athyglisverða grein í The Wall Street Journal daginn eftir að ljóst varð að hann fengi hin eftirsóttu verðlaun. Greinin fjallar um kapítalismann, eða öllu heldur um tvær ólíkar tegundir hans á Vesturlöndum. Önnur tegundin er að sögn Phelps sú sem fyrirfinnst í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada, þar sem byggt er á séreignarréttinum og því að auðvelda nýjum viðskiptahugmyndum athafnamanna að verða að veruleika. Þó að mikið af tækniframförum komi frá fyrirtækjum sem þegar hafi verið stofnuð, komi mikið af tækniframförum, sérstaklega þeim merkustu, frá nýjum fyrirtækjum. Þetta er frelsi til athafna, með öðrum orðum kapítalismi, segir Phelps.
Hitt kerfið, sem finna má á meginlandi Vestur-Evrópu, er einnig byggt á séreignarréttinum. Því hefur hins vegar verið breytt með því að taka upp stofnanir sem hafa „félagsleg“ markmið, svo sem að verja „hagsmunaaðila“. Kerfið byggir á stofnunum á borð við stór samtök vinnuveitenda, launþega og banka. Phelps segir að frá síðari heimsstyrjöldinni hafi frjálsræði verið aukið, en nýjar stofnanir hafi sprottið upp; meðákvörðunarréttur í fyrirtækjum, launþegaráð og í Þýskalandi sitji fulltrúar verkalýðsfélaga í fjárfestinganefndum fyrirtækja. Kerfið hamli gegn breytingum og skorti sveigjanleika. Þetta kerfi sé svo ólíkt kapítalismanum að það beri annað nafn, til dæmis félagslegt markaðshagkerfi í Þýskalandi.
Hér verður ýtarleg umfjöllun Phelps ekki rakin í smáatriðum, en látið nægja að líta á eina mikilvæga niðurstöðu hans. Hann veltir því fyrir sér hvort meiri dýnamík í kapítalíska kerfinu skili betri árangri en félagslega markaðshagkerfið á meginlandi Evrópu. Hann ber saman þrjú stóru hagkerfi meginlandsins og Bandaríkin og segir að framleiðni á vinnustund sé lægri á meginlandinu en í Bandaríkjunum. Atvinnuþátttaka sé einnig almennt lægri á meginlandinu, sem þýðir með öðrum orðum að atvinnuleysi er almennt hærra. Í þriðja lagi nefnir hann að samkvæmt nýjum gögnum The World Values Survey séu starfsmenn á meginlandinu síður ánægðir með vinnuna og séu síður stoltir af því sem þeir gera í vinnunni.
Phelps er ekki laus við gagnrýni á kapítalismann og telur hann ekki gallalausan. Hann telur hins vegar greinilega að hann sé betri kostur en annað sem í boði er, ekki síst vegna þess að Phelps leggur áherslu á gildi þess að drepa ekki niður frumkvæði einstaklinganna í hagkerfinu. Helsti kostur kapítalismans í augum Phelps er augljóslega það sem hann kallar dýnamík, enda heitir grein hans Dynamic Capitalism. Og hann færir rök fyrir því að það að auka dýnamík með því að efla kapítalismann þjóni þeim tilgangi að auka efnahagslegt réttlæti. Í því sambandi bendir hann á aukna framleiðni og hækkandi tekjur í kapítalísku ríkjunum, bæði þeirra sem hafa lægstu tekjurnar og hinna.