R íkissjónvarpið sagði frá því í gær að danskur stjarneðlisfræðingur, Henrik Svensmark, hefði sett fram kenningu um að breytingar á hitastigi jarðar héldust í hendur við breytingar á virkni sólarinnar. Þetta er að svo sem ekki ný kenning en nú var verið að birta gögn sem styðja hana og um það má lesa í frétt á vef Dönsku geimvísindastofnunarinnar. Í fréttaviðtalinu við Svensmark sem birt var í ríkissjónvarpinu kom svo fram að gögnin sýndu að megnið af hitabreytingum jarðar síðustu öldina mætti skýra með breytingum í virkni sólarinnar.
Í frétt Dönsku geimvísindastofnunarinnar er haft eftir forstöðumanni hennar að margir loftslagsvísindamenn hafi litið svo á að tengslin á milli geimgeisla, eða geisla frá sólinni, og loftslags séu ósönnuð. Sumir hefðu fullyrt að erfitt væri að ímynda sér hvernig geislarnir gætu haft áhrif á skýjahuluna, eins og kenning Svensmark gengur út á. Tilraunin sem nú hafi verið birt sýni hins vegar hvernig þetta gerist og „ætti að hjálpa við að koma geimgeislatengingunni tryggilega á dagskrá alþjóðlegra loftslagsrannsókna,“ segir forstöðumaðurinn.
Það verður fróðlegt að vita hvort þessar niðurstöður verða tekna alvarlega, því að rétttrúnaður nútímans hefur hingað til ekki leyft kenningar sem falla – þó ekki sé nema að hluta til – utan við hina einu sönnu gróðurhúsakenningu um að maðurinn beri langmesta ábyrgð á hitabreytingum jarðar. Þannig sagði Svensmark í viðtalinu að „[b]ara með því að birta þetta efni verður fólk spólvitlaust. Það kemur dálítið á óvart.“ Já, það kemur óneitanlega á óvart að fólk verði spólvitlaust yfir kenningum um hitabreytingar á jörðunni sem aðrir en faðir lýðnetsins kynna. Og sennilega verða einhverjir líka spólvitlausir ef rifjað er upp að Vefþjóðviljinn hefur fjallað um nýlega kvikmynd þessa virta skapara veraldarvefsins; ekki aðeins einu sinni, ekki tvisvar, heldur að minnsta kosti þrisvar.
Líklega verða einhverjir líka spólvitlausir ef birt er mynd sem sýnir umrætt samhengi, en hana er að finna í glærusýningu Svensmark og fleiri frá því í nóvember í fyrra.