Föstudagur 6. október 2006

279. tbl. 10. árg.

T vö athyglisverð viðtöl við forystumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík birtust í Viðskiptablaðinu í dag. Nú liggur fyrir ný úttekt á fjármálum Reykjavíkurborgar og að því tilefni ræddi Viðskiptablaðið við Vilhjálm Þ Vilhjálmsson borgarstjóra. Um skýrsluna segir Vilhjálmur: „Þetta er vissulega áfellisdómur yfir fjármálastjórn síðasta meirihluta og staðfestir gagnrýni mína á fjölmargra annarra á stjórn vinstri manna í Reykjavíkurborg síðustu árin.“ Og Vilhjálmur bætir við: „Eytt hefur verið um efni fram árum saman, skuldum safnað og þar með gangið á eignir og skattfé borgarbúa.“

Þessi orð borgarstjórans gefa fyrirheit um að fast verði haldið um pyngju borgarsjóðs og skuldasöfnun að hætti R-listans verði lögð af. Í framhaldinu hljóta borgarbúar að vænta lægri gjalda, ekki síst útsvars, sem hækkaði upp í topp í tíð vinstri manna.

Hitt viðtalið er við Kjartan Gunnarsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins með fjórum formönnum hans frá árinu 1980. Kjartan tekur því ólíklega að hann sé að segja skilið við flokkinn þótt hann standi upp úr framkvæmdastjórastólnum.

Ekki aldeilis. Ég mun áfram gera mitt til að stuðla að framgangi frjálshyggjunnar og vinna ötullega innan flokksins þó án þess að mæta hér á hverjum morgni eins og ég hef gert í 26 ár.

Það er sérlega áhugavert að lesa orð Kjartans um Geir Hallgrímsson, fyrrverandi formann flokksins og þann fyrsta sem hann starfaði með sem framkvæmdastjóri:

Geir Hallgrímsson hafði mikil áhrif á þá sem á eftir honum komu. Ef menn kynna sér störf og stjórnmálaferil hans sjá menn að Geir var einn einbeittasti markaðs- og frjálshyggjumaður sem verið hefur í forystu Sjálfstæðisflokksins. Hann stofnaði útgáfufyrirtæki ungur maður í félagi við vini sína. Félagið gaf út mikið af ritum og bókum sem drógu fram þann hrylling sem kommúnisminn var. Geir var sannfærður í trú sinni á ágæti frjálshyggjunnar en hann var einnig mikill samfélagsmaður.

Ekki er víst að allir geri sér glögga grein fyrir hlut Geirs í uppgangi frjálshyggjunnar á Íslandi á síðustu áratugum 20. aldarinnar enda voru aðstæður í þjóðfélaginu almennt og ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins honum mjög mótdrægar á meðan hann var formaður. Þessum þætti hljóta að verða gerð skil með ítarlegum hætti en Vefþjóðviljinn vék stuttlega að honum fyrir nokkrum árum.