Þ að var skynsamlegur leiðari í Morgunblaðinu í gær. Þar var fjallað um ríkisfjármálin og tekið undir með Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem lýst hefur þeirri skoðun að alþingi megi ekki minnka þann tekjuafgang sem gert er ráð fyrir í nýju fjárlagafrumvarpi. Um þetta segir Morgunblaðið og Vefþjóðviljinn tekur vitaskuld undir: „Á kosningaári eru stjórnmálamenn veikari en ella fyrir alls konar freistingum, sem fela í sér hærri útgjöld til alls konar góðra mála. Ef ríkisfjármálin eiga að gegna tilætluðu hlutverki í hagstjórninni þurfa þeir hins vegar að standast freistingarnar.“
Þetta er vel sagt hjá blaðinu. Sama blaði og hina 364 daga ársins er gráti nær yfir fjárskorti hvar sem það lítur í kringum sig. Ef nokkur maður kemur fram opinberlega og kvartar yfir því að einhver þjónusta standi honum eða hans fólki ekki til boða, eða ef stofnun segist ekki geta gert þetta eða hitt vegna þess að fjárframlög hafi ekki hækkað alveg nógu mikið milli ára, þá gerist það undantekningarlítið að Morgunblaðið birtir leiðara þar sem tekið er undir kröfurnar. Hversu mjög sem framlög hins opinbera hækka til „góðra mála“, þá verður það aldrei svo að Morgunblaðinu þyki ástandið ekki „blettur á okkar ríka samfélagi“, eða hvernig sem þeir eru nú frasarnir sem blaðið notar. En þegar þannig hafa komið leiðarar í röðum þá ber blaðið skyndilega í borðið og snýr sér að stjórnmálamönnum og segir: Við ætlum að halda áfram að kaupa okkur velvild með því að gráta hástöfum yfir öllum þeim sem ekki fá nóga peninga, en þið skulið sko gera svo vel að sýna ábyrgð og standast freistingar, framagosarnir ykkar sem alltaf eruð að reyna að kaupa ykkur velvild með því að láta undan útgjaldakröfum. Skammist ykkar.“
Hvernig væri nú að Morgunblaðið færi að eigin ráðum og reyndi í eins og eitt fjárlagaár að skrifa gegn en ekki með öllum útgjaldakröfunum. Reyndi að standast freistingarnar í eins og eitt ár. Það er ekkert gagn í almennu tali ef menn hlaupa alltaf til og taka undir einstakar kröfur.