Miðvikudagur 4. október 2006

277. tbl. 10. árg.

R ætt hefur verið við fulltrúa Samtaka herstöðvaandstæðinga og aðra gamla kommúnista upp á síðkastið eins og málstaður þeirra hafi verið fullkomlega frambærilegur í gegnum tíðina. Baráttumál þeirra hafi bara verið einhver skoðun, alveg jafn góð og gild og hver önnur. Til dæmis sú að landið skyldi varið gegn útþenslustefnu Sovétríkjanna og öðrum ógnum innlendum og erlendum. Og það er látið eins og þetta hafi allt verið miklir sakleysingjar og engum hafi stafað ógn af þeim. Það hefur til dæmis bara verið rifjað upp á einum stað, í fjölmiðlapistli Ólafs Teits Guðnasonar síðast liðinn föstudag, að einn herstöðvaandstæðingurinn hafi komið sprengju fyrir í bragga í Hvalfirðinum til að leggja áherslu á skoðanir sínar.

Einn af þeim sem látið hefur eins og báðir málstaðir, herstöðvaandstæðinga og þeirra sem vildu varið land, séu jafn eðlilegir er Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hélt ræðu á Alþingi í fyrradag og það þarf svo sem engum að koma á óvart þótt þessi fyrrum leiðtogi þess stjórnmálaflokks sem harðast barðist gegn vörnum landsins skuli nú reyna að láta eins og barátta hans þá hafi verið eitthvað annað en skaðleg og hættuleg fyrir land og þjóð. En það þarf meira en skrúðmælgi og nokkur ár til að menn gleymi því fyrir hverju Ólafur Ragnar Grímsson hefur barist í gegnum tíðina.

Rétt er að minnast að lokum þess sem vel er gert. Herstöðvaandstæðinga var minnst með viðeigandi hætti í einum af fjölmiðlum landsins. Þetta var í Staksteinum Morgunblaðsins á mánudag, þar sem sagði meðal annars:

Þeir gengu í þágu kommúnismans, sem hrundi með Berlínarmúrnum. Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar. Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun. Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953. Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar. Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum. Þetta voru hugsjónir herstöðvaandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi. Þeir vildu koma Íslandi undir hæl kommúnismans. Minning Samtaka herstöðvaandstæðinga verður ekki í heiðri höfð.