Á
Al Gore kvikmyndagerðarmaður. |
fimmtudaginn frumsýndi Háskólabíó kvikmyndina An Inconvenient Truth sem Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna stendur á bak við og leikur jafnframt aðalhlutverkið í. Gore sjálfur er raunar öðrum þræði helsta viðfangsefni myndarinnar og myndin er ef til vill undirbúningur hans að annarri atrennu að Hvíta húsinu.
Því miður virðist sannleikurinn, sem myndin fjallar um, svo óþægilegur að frumsýningin fór fram fyrir hálftómum sal. Myndin er hins vegar að flestu leyti vel gerð; áhrifaríkar myndir, hljóð og línurit leggjast á eitt um að sannfæra áhorfendur um að mikil vá sé fyrir dyrum. Það er hægt að kaupa bók með sama nafni og geisladisk með tónlistinni úr myndinni. Eins og sagt var frá í fréttum á dögunum kallar stofnun sem tengist breska verkamannaflokknum æsing, upphrópanir og heimsendaspár umhverfisverndarsamtaka um breytingar á loftslagi „climate porn“ eða loftslagsklám. Kvikmynd varaforsetans fyrrverandi verður vart sett á þann bás og það væri ekki sanngjarnt að segja að Gore sé að clime-ast á viðfangsefninu. Gore dregur vissulega upp skuggalega mynd af ástandinu en engu að síður er hann bjartsýnn á að vandinn verði leystur, ekki síst ef góðu gæjarnir ná aftur völdum í Washington D.C.
„Það er eiginlega með ólíkindum að Gore veifi þessari rannsókn Oreskes því þegar í janúar á síðasta ári hafði hún birt leiðréttinguna í Science. Gore vísar einnig í greinina í bók hans sem ber sama nafn og kvikmyndin. Bókin kom ekki út fyrr en á þessu ári, löngu eftir að mistökin lágu fyrir og löngu eftir að það var orðið ljóst að það er enginn „consensus“ um hvort „consensus“ sé til staðar um gróðurhúsaáhrifin.“ |
Myndina hefur Gore á myndskeiðum frá New Orleans er fellibylurinn Katrín gekk þar yfir. Það er verulega langt seilst að tengja slíka einstaka atburði við gróðurhúsaáhrifin. Vandinn við landgöngu Katrínar var að hún fór yfir borg sem að verulegu leyti er byggð neðan sjávarmáls og í stað þess að stöðuvatnið norðan borgarinnar tæki við vatnselgnum flæddi vatn einnig inn í borgina úr Pontchartrain vatninu. Þessar aðstæður hafa ekkert með gróðurhúsaáhrifin að gera. Gore nefnir einnig að tryggingatjón hafi aukist mjög af völdum fellibylja og sýnir gröf því til stuðnings án þess að fram komi hvort tekið er tillit til þess að byggð hefur teygt sig til svæða sem engum hefði áður dottið í hug að byggja á vegna veðurfars, flóðahættu og þess hve afskekktir þeir eru.
Það er ýmislegt fleira sem vekur upp spurningar þegar horft er á þessa mynd. Gore bregður upp ansi mörgum myndum að jöklum, snjóbreiðum og vötnum sem virðast hafa hörfað og minnkað á undanförnum áratugum. Það kemur þó aldrei fram hvort myndirnar eru teknar á sama tíma árs og hvaða aðrir þætti gætu haft áhrif á til dæmis stærð stöðuvatna eins og til dæmis ár sem veitt hefur verið annað. En ef til vill er það svo sjálfsagt að myndirnar séu sambærilegar að það þarf ekki að taka það fram.
Gore sýnir það með einföldum hætti að Bandaríkjamenn blása manna mest út af gróðurhúsalofttegundum. Þeir eiga stærsta hlutfall allra ríkja enn sem komið er og útblástur þeirra er einnig mestur á mann. En Bandaríkin eru líka með mjög mikla framleiðslu á mann og þau hafa náð að auka þá framleiðslu umfram útblástur gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug. Og er það ekki rétt munað að í aðdraganda forsetakosninganna árið 2000 lagði Gore að Clinton þáverandi forseta að setja hluta af eldsneytisvarabirgðum ríkisins á markað svo eldsneytisverð lækkaði og stuðningur við hann hækkaði?
Bandaríkin eru einnig gagnrýnd fyrir að vera ekki aðilar að Kyoto samningnum um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Látið er í það skína í myndinni að Bandaríkin hefðu ef til vill orðið aðilar ef annar frambjóðandi hefði sigrað í Flórída fyrir sex árum. Það er afar ólíklegt. Öldungadeild Bandaríkjaþings var beinlínis búin að hafna slíkum samningi með einróma samþykkt svonefndrar Byrd-Hagel ályktunar. Stjórn Clintons og Gores reyndi aldrei að leggja Kyoto samninginn fyrir þingið eða leiða aðrar bindandi takmarkanir á útblæstri gróðurhúsalofttegunda í lög. Þessi saga Clintonstjórnarinnar aftraði Gore ekki frá því að birta lista yfir þau lönd sem gerðust aðilar að Kyoto samningnum í myndinni sinni. Meðal þessara landa eru flest ríki Evrópu en fæst þeirra munu að óbreyttu standa við skuldbindingar sínar. Ísland er aðili og fékk nafnið sitt þar af leiðandi birt í myndinni á listanum yfir „góðu“ gæjana. Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi mun að öllum líkindum aukast um nærri 50% á tímabilinu sem samningurinn um takmarkanir á útblæstri tekur til.
Gore sýndi einnig mikið línurit sem spannar síðustu 650 þúsund ár og sýnir svo ekki verður um villst að hiti andrúmslofts jarðar hefur sveiflast mikið á þessum tíma enda hefur jörðin mátt þola margar ísaldir á þessum tíma. Það er einnig ljóst að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur sveiflast í nokkrum takti við hitann. En það blasir hins vegar einnig við að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur ekki áður verið jafn mikill og hann er nú. Hann er miklu meiri nú en nokkru sinni síðustu 650 þúsund ár. Hvað það hefur nákvæmlega í för með sér veit enginn fyrir víst þótt margir telji vissulega að hitinn muni einfaldlega hækka í takt við hinn áður óþekkta styrk koltvísýrings.
Gore nefnir einnig að jöklar í Himalayjafjöllunum séu á undanhaldi og það stefni vatnsforðabúri 40% mannkyns í hættu. Í síðustu viku bárust hins vegar fréttir af því að hlýnun muni leiða til stækkunar sumra jökla í Himalayja því úrkoma muni aukast.
Og varaforsetinn fyrrverandi leggur einnig til atlögu við þann þráláta orðróm að vísindamenn séu ósammála um gróðurhúsaáhrifin og afleiðingar þeirra. Hann vitnar til rannsóknar sem Naomi Oreskes gerði í ISI gagnagrunni vísindarita á árunum 1993 til 2003. Niðurstöðurnar birti Oreskes í tímaritinu Science 3. desember 2004 undir fyrirsögninni „The Scientific Consensus on Climate Change“. Þær voru sláandi. Oreskes hélt því fram að í þeim 928 tilvikum sem orðin „climate change“ hefðu komið fyrir í vísindagreinum á þessu tímabili hefðu 75% greinanna stutt það sjónarmið að loftslagsbreytingar ættu sér stað af mannavöldum en 25% verið hlutlausar. Engin grein hefði hins vegar gengið gegn því að maðurinn ætti hlut að máli. Þetta setur Gore fram með þeim hætti í mynd sinni að í 0% greinnanna sé kenningunni andmælt. En eins og menn geta kynnt sér hér þá varð Oreskes að birta leiðréttingu við grein sína í Science því hún hafði ekki notað þau leitarorð sem hún sagðist í upphafi hafa notað. Leitarniðurstaða eftir orðunum „climate change“ gaf í raun yfir 12 þúsund greinar en ekki 928 eins og Oreskes hélt fram. Oreskes sagði í leiðréttingunni í Science tæpum tveimur mánuðum síðar að hún hefði notað leitarorðin „global climate change“ sem gefa miklu færri leitarniðurstöður. Þar með er ekki öll sagan sögð því aðrir hafa farið yfir flokkun Oreskes á greinunum og eru henni hreint ekki sammála um að meirihluti þeirri styðji kenninguna. Það er eiginlega með ólíkindum að Gore veifi þessari rannsókn Oreskes því þegar í janúar á síðasta ári hafði hún birt leiðréttinguna í Science. Gore vísar einnig í greinina í bók hans sem ber sama nafn og kvikmyndin. Bókin kom ekki út fyrr en á þessu ári, löngu eftir að mistökin lágu fyrir og löngu eftir að það var orðið ljóst að það er enginn „consensus“ um hvort „consensus“ sé til staðar um gróðurhúsaáhrifin.
Margt fleira orkar tvímælis í An Inconvenient Truth. Helstu meindýr, skordýraplágur og sjúkdómar síðustu áratuga eru tengd við gróðurhúsaáhrifin. Jafnvel hörmungunum í Darfur í Súdan er hrært saman við. Slys og dauði í fjölskyldu Gores eru fléttuð við málið með hollywoodískum hætti. Þeir sem gleypa ekki allar heimsendakenningarnar hráar eru svo sagðir handbendi orkufyrirtækja og tala gegn betri vitund. Áróðursbragðið verður svo nær óbærilegt þegar vitnað er á dramatískan hátt til varnaðarorða Winstons Churchills frá árinu 1936 en þá var mikil ógn í gerjun á meginlandi Evrópu og Churchill vildi grípa til aðgerða strax. Gore er Churchill og hlýnun andrúmsloftsins er Hitler. Svo einfalt er það áhorfendur góðir.
En Gore er ekki alls varnað. Hann bendir á að margar tækninýjungar í orkumálum bíði þess að verða nýttar og það séu ótal ráð til þess að nýta betur þá orku sem við nýtum nú þegar. Því miður fyrir orkunotendur hafa fáar nýjungar staðist samanburð við jarðefnaeldsneytið sem svarar langstærstum hluta orkuþarfar mannsins. Þess vegna ferðast Gore um heiminn með kvikmyndina sína á olíuknúnum þotum og ekur um fjölskyldubúgarðinn á bensíntrukk.