Laugardagur 2. september 2006

245. tbl. 10. árg.

Þ að kann að vera tilviljun, en er í öllu falli táknrænt, að daginn eftir að ríkissjóður birti afkomutölur sínar fyrir fyrstu sjö mánuði ársins fóru Bolvíkingar í sérstaka bílferð til að krefjast aukinna ríkisútgjalda. Bolvíkingar eru ósáttir við veginn fyrir Óshlíð – sem er út af fyrir sig skiljanlegt – og vilja þess vegna að lagt verði út í miklar vegaframkvæmdir fyrir milljarða króna á kostnað skattgreiðenda. Sú krafa kemur ekki á óvart og er í takt við annað sem skattgreiðendur verða að þola. Ekki síst á tímum eins og þessum þegar ríkissjóður er yfirfullur af fé, kosningar eru fram undan og alls konar kröfugerðarhópar sjá sér leik á borði að klóra til sín hluta ránsfengsins.

Hluti af kröfum þeirra, sem heimta frekari vegabætur frá Bolungarvík á kostnað skattgreiðenda, er að sem mest af tengingunni til Ísafjarðar verði um jarðgöng. Umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Vestfjörðum upplýsir í Morgunblaðinu í dag að hver kílómetri af slíkum vegi kosti um 700 milljónir króna og að ríkisstjórnin hefði þegar ákveðið að leggja út í stutt göng, sem  hefðu þó ekki verið „fullnaðarlausn“, hvað sem það nú þýðir, en hefðu getað verið hluti af boðlegri „framtíðarlausn“. Þau göng áttu að vera 1,2 kílómetrar að lengt, sem gera litlar 840 milljónir króna, gróft áætlað. Nú er hins vegar verið að rannsaka málið frekar og hættan er vitaskuld sú, sérstaklega í ljósi stöðu ríkissjóðs og væntanlegra þingkosninga, að rannsóknin leiði í ljós að vænlegt sé að þingmenn kjördæmisins veiti loforð um umfangsmeiri jarðgangagerð á næstu mánuðum.

Önnur leið sem umdæmisstjórinn nefnir er að gera tvenn göng af fyrrnefndri lengd auk frekari vegabóta. Óhætt er að gefa sér að slík leið mundi kosta 1.700 milljónir króna hið minnsta, en líklega mun hærri fjárhæð. Þriðja leiðin sem verið er að skoða er göng upp á fjóra kílómetra og þar með um 3.000 milljónir króna, og fjórða leiðin felur í sér sex kílómetra göng upp á litlar 4.400 milljónir króna, reynist ágiskun Vegagerðarinnar rétt.

Það er alltaf gott að setja stórar tölur í skiljanlegt samhengi og þegar rætt er um vegtengingu til afskekkts bæjar er eðlilegast að reikna kostnað á mann. Í þessu tilviki má gróflega gera ráð fyrir að kostnaðurinn við leið 1 sé um 900.000 krónur á hvern Bolvíking, en þess ber að geta að sú leið væri aðeins hugsuð sem áfangi að „fullnaðarlausn“. Leið 2, sem telst væntanlega „fullnaðarlausn“ líkt og leiðir 3 og 4, mundi kosta vel yfir 1.700.000 krónur á hver Bolvíking. Leið 3 mundi kosta um 3.000.000 króna á hvern Bolvíking og leið 4 um 4.400.000 krónur á hvern íbúa bæjarins.

Þessar tölur eru auðvitað komnar út yfir öll eðlileg mörk þess sem hægt er að gera kröfu um að skattgreiðendur borgi til að bæta vegi á landinu, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Þetta má best sjá af því að ef uppi væri krafa í Reykjavík um að fara út í jafn umfangsmiklar vegaframkvæmdir og leið 4 gerir ráð fyrir, þá væri kostnaðurinn við þær framkvæmdir um 500 milljarðar króna. Hætt er við að íbúar utan Reykjavíkur – og vonandi einhverjir Reykvíkingar líka – mundu láta í sér heyra ef slík áform væru uppi.