Vefþjóðviljinn hefur stundum fjallað um hið illa þokkaða skordýraeitur DDT en nafnið eitt og sér vekur með mönnum hroll. Vefþjóðviljinn hefur engu að síður um árabil leyft sér að kynna sjónarmið þess efnis að notkun DDT verði leyfð að nýju. Umhverfisverndarsinnar komu því til leiðar að efnið var bannað. Eftir útkomu bókar, sem stundum hefur verið nefnd biblía umhverfisverndarsinna, Silent Spring, eftir Rachel Carson árið 1962 var DDT úthrópað sem ógnun við lífríkið og umhverfisverndarsinnar tóku að berjast gegn notkun þess með þeim árangri að efnið var bannað í hverju landinu á fætur öðru. En Vefþjóðviljinn hefur ekki bara hvatt til þess að DDT verði leyft að nýju til þess eins að vera á öndverðum meiði við umhverfisverndarsinna, eins og taugaveiklaðir Lesbókarpennar kynnu að halda. Talið er að malaría felli 1 til 2 milljónir manna, ekki síst börn undir 5 ára aldri, í Afríku á ári hverju. Sigur græningjanna í baráttunni gegn DDT hefur kostað tugi milljóna manna lífið því efnið er langbesta vörnin gegn malaríu. DDT útrýmdi malaríu meðal iðnvæddra þjóða og efnið er enn ódýrasta, fljótlegasta og varanlegasta vörnin gegn moskítóflugunni sem ber sjúkdóminn með sér.
Nú berast hins vegar ánægjulegar fréttir af því að efnið verði aftur tekið í notkun í Afríku. Þróunarstofnun Bandaríkjanna (USAID) og Alþjóðheilbrigðismálastofnunin (WHO) munu ætla að mæla með því að efnið verði leyft til notkunar innandyra.