Þeir eru ófáir sem hafa verið andvígir lækkun ríkisstjórnarinnar á tekjuskatti einstaklinga undanfarin ár. Það er aldrei rétta stundin að mati þessari manna; þenslan er of mikil, samdrátturinn of mikill, stöðugleikanum má ekki raska, tekjugrundvöll ríkissjóðs má ekki veikja, skattalækkun eykur misskiptinguna og einkaneysluna, landinn eyðir henni bara í innfluttan lúxus. Þrátt fyrir þessa miklu andstöðu hefur hámarksskatthlutfallið engu að síður lækkað úr um 45% í 36,7% á nokkrum árum. Meðal andstæðinga þessara skattalækkana eru stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig, gervöll verkalýðsforystan og flestar sveitarstjórnir landsins sem hækkað hafa útsvarið og þar með rænt hluta lækkunarinnar af skattgreiðendum. Síðast en ekki síst má nefna ríkisstjórnina sjálfa. Hún ákvað eftir fund með verkalýðsforystunni í sumar að hætta við eigin áður lögfesta lækkun á tekjuskatti einstaklinga.
Nú koma þessir menn fram hver af öðrum og eru mjög reiðir yfir því að tekjuskattur einstaklinga.sé hærri en fjármagnstekjuskattur.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði og aðdáandi Leníns, er einn þessara manna sem kvartar nú yfir því að skattgreiðendur kjósi fremur að greiða fjármagnstekjuskatt en tekjuskatt og útsvar. Hann birtist í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld og barmaði sér undan því að einhverjir bæjarbúar kynnu að greiða frekar fjármagnstekjuskatt en tekjuskatt og útsvar. Alla hans bæjarstjóratíð hefur Hafnarfjarðarbær lagt eins hátt útsvar á íbúa og bæjarstjórninni er heimilt lögum samkvæmt. Lúðvík hefur með öðrum orðum gert sitt ýtrasta til að munurinn á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti einstaklinga sé sem mestur.