Fimmtudagur 10. ágúst 2006

222. tbl. 10. árg.

Fréttamenn eru alltaf jafn áhugasamir um nýjustu ævintýri „mótmælendanna“ á Austurlandi. Og alltaf skal þess gætt að kalla þá mótmælendur en ekki skemmdarverkamenn, þó þeir séu í raun í fréttum fyrir skemmdarverk sín, lögbrot eða ótta lögreglunnar um slíkt – en ekki fyrir „mótmæli“. Og það veit þetta fólk auðvitað líka. Það er nákvæmlega engin frétt að einhverjir séu á móti virkjanaframkvæmdum. Það vita allir menn að skiptar skoðanir eru um þær og hafa lengi verið. Það verður ekki fréttnæmt þó einhvers staðar verði mótmælastaða. Eina leiðin til að andstæðingar framkvæmdanna komist í fréttir er að þeir nái að vinna einhvers konar spellvirki eða geti sagt sögu um einhver viðskipti sín við lögregluþjóna. Það blasir við, að erindi fólksins austur er í raun þetta tvennt, eða að minnsta kosti annað þessa. Ef tilgangurinn væri sá einn „að vekja athygli á sjónarmiðum“ sínum, þá mætti eins gera það með skilti á Lækjartorgi – og þarf raunar ekki að gera neitt slíkt, því sjónarmið andstæðinga virkjana eru alþekkt og hafa verið kynnt í fjölmiðlum af miklum krafti undanfarin ár.

Eitt af því sem athugavert er við umræðuna um þessi mál, er talið um „tjáningarfrelsi“ og „rétt til mótmæla“. Fólk á ekki að gengisfella hugtök með því að nota þau með svo óvönduðum hætti. Tjáningarfrelsi, rétturinn til að segja skoðun sína, kemur því ekkert við þegar einhver vill hindra löglegar framkvæmdir annarra, taka sér stöðu á landi sem hann á ekki og neitar að hlýða lögmætum fyrirmælum. Það hefur enginn maður hindrað „mótmælendurna“ í að segjast vera á móti virkjunum. Er einhver sem ekki veit um þá afstöðu þeirra? Tjáningarfrelsi þeirra hefur ekki verið skert. Tjáningarfrelsi veitir rétt til að segja sína skoðun á umdeildum þjóðfélagsmálum en ekki til þess að hindra löglega framkvæmd þeirra. Menn geta til dæmis verið andvígir starfsemi stjórnmálaflokksins Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, svo lítið dæmi sé tekið, og skrifað greinar og haldið fundi til þess að hvetja fólk til að styðja ekki þann flokk. Tjáningarfrelsið verndar rétt manna til slíks. En það myndi ekki veita mönnum leyfi til þess að hindra starfsemi flokksins með valdi, loka götum við flokksskrifstofur, hlekkja sig við kjörkassa í prófkjöri og svo framvegis. Engu skipti hvort menn segðust vera að „mótmæla“ eða „vekja athygli á“ einhverju. Þetta væru einfaldlega skemmdarverk. Sama myndi gilda ef einhver vildi hindra til dæmis lögmann við að berjast fyrir hugðarefnum sínum. Leggjast yfir tölvuna hans eða hlekkja sig við bílinn hans svo hann kæmist ekki til dóms. Það væru ekki mótmæli heldur skemmdarverk og engum dytti í hug að tala um lýðræðislegan rétt sinn til slíkra aðgerða.

Ein stétt opinberra starfsmanna hefur fengið harðar kveðjur undanfarið vegna þessara aðgerða. Lögreglumenn fyrir austan hafa setið undir ásökunum um eitt og annað og nú hefur einn stjórnmálaflokkur krafist rannsóknar á hugsanlegum brotum starfsmannanna. Það er ekki mikið traust sem lögreglumenn heyra frá flokksstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og ekki að efa að BSRB mun bregðast hart við, sínum mönnum til varnar.

Kertum var fleytt í gær til að lýsa andstöðu við útbreiðslu og notkun kjarnorkuvopna. Það er skiljanlegt að fólk hafi áhyggjur af slíku, nú þegar Íranir eru mjög alvarlega grunaðir um að ætla að koma sér upp slíkum vopnum. Allir áhugamenn um heimsfrið og afvopnun taka höndum saman í kröfunni um að slík áform verði tafarlaust lögð til hliðar í eitt skipti fyrir öll.