Þá flyst þyngdarpunkturinn, þegar mest er um að vera, aftur um nokkra mánuði. Sumir hverjir telja að það sé jákvætt vegna efnahagsástandsins en við myndum ekki stoppa neinar byrjunarframkvæmdir eða hönnun eða annað þvíumlíkt núna. |
– Stefán Hermannsson framkvæmdastjóri Austurhafnar, framkvæmdafélags í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins vegna byggingar tónlistarhúss, í viðtali við Morgunblaðið 25. júlí 2006. |
N
Tónlistarhúsinu er frestað til málamynda um nokkra daga en skattalækkunum frestað að eilífu. |
ei það á ekki að stoppa neinar byrjunarframkvæmdir við tónlistarhúsið þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gefið í skyn að framkvæmdum yrði frestað. Það er bara opnun hússins sem verður frestað um nokkra daga og verður snemma árs 2010 í stað síðla árs 2009.
En 12 þúsund milljóna króna spurningin er hins vegar: Hvers vegna er ekki endanlega hætt við tónlistarhúsið eins og hina lögfestu lækkun tekjuskatts?
Ríkisstjórnin ætlar ef til vill að fresta opnun tónlistarhúsinu um 5 mánuði en skattalækkun hefur hins vegar verið slegin alveg af. Þeir sem byggja tónlistarhúsið segja þessar hugleiðingar ríkisstjórnarinnar um tónlistarhúsið þó ekki hafa nein áhrif á byrjunarframkvæmdir. Þetta er því ekki gæfulegt sýnishorn af viðhorfum ríkisstjórnarinnar til eyðenda og greiðenda skattfjár. Eyðendur fá sitt með nokkurra daga seinkun en skattar eru hækkaðir á almenning án þess að nokkuð sé sagt um hvenær þeir verði lækkaðir aftur.
Er það svo liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn þenslunni að fjármálaráðherra ætlar að hækka vaxtabætur til þeirra sem eru orðnir eignamenn með hækkandi fasteignaverði og menntamálaráðherra var að undirrita samning um byggingu menningarhúss á Akureyri? Að því ógleymdu að búið er að hækka barnabætur, bætur til aldraðra og tekjutengja atvinnuleysisbætur.
Hvernig verður það fyrir Árna M. Mathiesen að hafa það eitt á afrekaskránni gagnvart skattgreiðendum þegar kemur að kosningum í vor að hann tók lögfesta lækkun tekjuskattshlutfallsins af skattgreiðendum? Ætlar hann að verða fyrsti fjármálaráðherrann frá tíð Ólafs Ragnars Grímssonar í embættinu sem hækkaði skatta og lækkaði enga? Það kæmi verulega á óvart miðað við það sem áður hefur sést til Árna.