Hugsi menn sér nú að þyrlan á grafreitnum hefði verið í erindum annarra en þessarar fréttastöðvar. Hvernig halda menn að umrædd stöð léti ef hún hefði þá komist á snoðir um slíka framkomu? Ætli það yrðu langar fréttir, brúnaþungir fréttamenn og alvarlegur fréttastjóri með lokasetningu um þetta leiðinlega mál? Hvað ætli stöðin myndi sýna myndir af lendingunni oft? Hvaða yfirskrift fréttarinnar þætti nógu skáldleg?
Fréttastofan sem sendi þyrluna á stað er hins vegar stórmannleg og skellir allri skuldinni á flugmanninn. Segist ekki hafa beðið hann um að lenda á grafreitnum. Og það má vel vera rétt. En það er samt rétt að muna þessi viðbrögð stöðvarinnar næst þegar fréttamenn hennar reka hljóðnema framan í einhvern stjórnanda og spyrja hvort hann eigi ekki að bera ábyrgð á mistökum einhvers undirmanns síns. Það liggur nefnilega fyrir hvaða skoðun NFS hefur á slíkum atriðum. Þá réttu skoðun að þeir sem vinna verk bera ábyrgð á því.
Samband ungra framsóknarmanna sendi í gær frá sér áríðandi tilkynningu þar sem það er upplýst að Íslendingar eiga þó að minnsta kosti einn stjórnmálamann sem nokkuð er varið í. Þar á sambandið við Halldór Ásgrímsson alþingismann, en í tilkynningunni segir nánar um þingmanninn: „Halldór hefur með einstakri framsýni, ósérhlífni og vinnusemi sinni sem þingmaður, ráðherra, forsætisráðherra og framsóknarmaður komið mörgum þeim framfaramálum til leiðar sem Íslendingar eru nú að njóta í ríkum mæli. Mun hans verða minnst sem eins merkasta stjórnmálamanns Íslandssögunnar“.
Jafnhliða þessari ábendingu mun stjórn sambandsins hafa gengið á fund Halldórs og til áréttingar fært honum að gjöf Prologum Heimskringlu, innbundinn í kálfskinn, áritaðan af Snorra Sturlusyni útvarpsmanni.
F yrst minnst er á Halldór Ásgrímsson bragðaref þá er sjálfsagt að minnast á það, að nú hefur komið upp ný tískuhugsun. Nú er allt í einu orðið gríðarlega mikilvægt að „eyða óvissu um ráðherraskipan“ með því að taka eins hratt og hægt er, og með sem allra minnstri umhugsun, allar þær ákvarðanir sem síðustu axarsköft þessa ágæta stjórnmálamanns hafa gert nauðsynlegar.
Hvaða stórhættulega „óvissa“ er það, sem átt er við? Hvaða vandi fylgir því – nákvæmlega – að það er ekki víst hver verður viðskiptaráðherra eða hvað það nú er, í næstu viku? Hvaða stórvirki stóðu fyrir dyrum í fagráðuneytunum næstu tíu dagana eða svo, og nú eru „í uppnámi vegna óvissunnar“? Ef að forsætisráðherrann hefði ekki skyndilega farið svo slysalega að ráði sínu, þá hefði ekki nokkur skapaður hlutur verið að gerast hjá ráðherrum hans. Þeir hefðu sennilega flestir verið á leið í sumarfrí.
Þeir sem lítið hafa til málanna að leggja eru auðvitað ánægðir að finna setningar eins og þessar með „óvissuna“, „skjót vinnubrögð“ og að „vinna hratt“. Menn komast nálægt því að vera stórir alvöru stjórnmálamenn rétt á meðan þeir segja að ekki megi dragast fram yfir einhverja tiltekna helgi að það ráðist hver verður félagsmálaráðherra. En vitibornir menn eru hins vegar líklegri til þess að spyrja hvort þeir séu raunverulega margir sem telja að meiri fljótfærni sé það sem íslensk stjórnmál þurfi nú hvað helst.