Föstudagur 2. júní 2006

153. tbl. 10. árg.

Á byrgðarleysi sveitarfélaganna í fjármálum hefur stundum verið rætt á þessum stað og full ástæða er til að ítreka það enn, nú þegar sveitarstjórnarmenn setjast niður og skipta ránsfeng næstu fjögurra ára. Í vefriti fjármálaráðuneytisins sem kom út í gær var birt súlurit sem sýnir tekjuafgang og hallarekstur ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1997. Myndin sýnir að ríkissjóður hefur í 8 skipti af 10 verið rekinn með afgangi, árin 2002 og 2003 eru undantekningar, en sveitarsjóðir landsins hafa öll þessi ár verið reknir með halla.

Það er magnaður árangur hjá sveitarstjórnarmönnum landsins að hafa tekist að sýna þá festu í rekstrinum að ekkert árið hafi það brugðist að þeir eyddu meira en þeir öfluðu. Ekki síst í ljósi þess að þeir hafa aukið skattheimtu á almenning gífurlega og taka nú til sín nánast eins hátt hlutfall af tekjum launamanna og lög frekast heimila. Á sama tíma og þessi staðfasta umframeyðslusemi á sér stað í sveitarstjórnum landsins er uppi umræða – og að því er virðist stundum í fullri alvöru – að færa fleiri verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hverjum dettur í hug að færa nokkurn hlut til sveitarfélaganna þegar árangurinn er sá sem raun ber vitni? Væri ekki nær að flytja verkefnin til einkaaðila, nú eða þá hafa þau áfram hjá ríkinu ef ekki vill betur? Eða jafnvel að færa verkefni frá sveitarfélögunum. Það er líklegra til árangurs en að gefa sveitarstjórnarmönnum færi á að auka á óráðsíuna.

T alandi um að flytja verkefni frá ríkinu má benda á umfjöllun í nýjasta fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Í fréttabréfinu segir meðal annars frá því að Sigurður Guðmundsson landlæknir kalli eftir aukinni umræðu um einkarekstur á þessu sviði. Haft er eftir honum að ef halda eigi núverandi þjónustustigi í heilbrigðiskerfinu og jafnvel að efla það þurfi fleira að koma til en aukin fjárútlát, þörf sé á markvissari rekstri. Landlæknir segist ennfremur telja að einungis sé spurning um tíma hvenær einkasjúkrahús hefur rekstur hér á landi.

Í ljósi umræðunnar sem oft skýtur upp kollinum hér á landi um „fjársvelti“ heilbrigðiskerfisins er líka athyglisvert það sem Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins nefnir í leiðara fréttabréfsins. Vilhjálmur bendir á að útgjöld til heilbrigðismála vaxi hratt hér á landi og að samkvæmt spám OECD stefni í að íslenska heilbrigðiskerfið verði það dýrasta í heimi verði ekkert að gert. Í fyrra hafi útgjöld til heilbrigðismála og umönnunar numið um 9,6% af landsframleiðslunni og einkarekstur hafi aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti.

Í ljósi þess hve miklum og ört vaxandi fjármunum er varið til heilbrigðismála hér á landi er ótrúlegt að reglulega skuli koma upp umræða um fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Og þar sem augljóst er að fé skortir ekki í kerfið en mikilvægt er að nýta betur það fé sem til kerfisins rennur, þá vekur furðu hve mikillar tortryggni gætir oft í garð hugmynda um aukinn einkarekstur á sviði heilbrigðismála.