Miðvikudagur 31. maí 2006

151. tbl. 10. árg.

Í gær varð ýmsum að ósk sinni um að Alþingi starfaði lengri tíma ársins, því að þá hófst sumarþing. Það hlýtur að hafa verið þessum áhugamönnum um lengra þinghald mikið ánægjuefni að fylgjast með hæfilega gagnlegu þrasi um þingstörfin fram eftir degi og að því loknu staglkenndri umræðu um frumvarp um Ríkisútvarpið. Í dag verður svo ekki síður gagnleg dagskrá þar sem meðal annars stendur til að ræða fyrirspurn um íþróttastefnu ríkisins sem Valdimar L. Friðriksson þingmaður Samfylkingarinnar beinir til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Valdimar spyr um ýmis atriði stefnumótunarvinnu, sem ef marka má fyrirspurnina hefur farið fram undir yfirskriftinni „Íþróttavæðum Ísland“. Valdimar spyr – öllum að óvörum – hvort að aukið fjármagn til íþróttamála eða íþróttahreyfingarinnar muni fylgja framkvæmd stefnunnar, og geta menn giskað á hvort að Valdimar telur ástæðu til að auka eða minnka styrki ríkisins til íþróttamála.

Menn geta líka giskað á hvort að margir þingmenn munu fara í ræðustól Alþingis til að halda fram málstað skattgreiðenda í umræðunni, en ef marka má reynsluna eru nær engar líkur til að einhver standi upp þeim til varnar. Staðreyndin er nefnilega sú að störf Alþingis snúast að stórum hluta til um að hafa fé af almenningi til alþingismenn geti gert góðverk á annarra kostnað. Íþróttastefna ríkisins er einmitt gott dæmi um slíkt góðverk. Með réttu ætti ríkið ekki að hafa neina íþróttastefnu en leyfa landsmönnum þess í stað að stunda þær íþróttir sem þeir vilja á eigin kostnað og afskiptalaust. En þetta er ekki gert, þingmenn hafa nefnilega allt of mikinn tíma til að starfa og geta meðal annars sinnt óþurftarverkum á borð við það að ræða opinbera íþróttastefnu.

Og það er ekki aðeins að Valdimar ætli að nota fyrirspurnina til að reyna að kreista loforð um meira fé út úr menntamálaráðherra, heldur notar hann hana til að sýna hversu pólitískt rétthugsandi maður hann er. Síðasti liðurinn í fyrirspurninni er hvorki meira né minna en: „Hyggst ráðherra tryggja minnihlutahópum, þ.e. samkynhneigðum og innflytjendum, greiðari aðgang að íþróttaiðkun?“ Þessari spurningu ætti menntamálaráðherra auðvitað að svara eins og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra gerði í gærmorgun þegar hann var spurður að því í viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins hvort það væri siðlegt að Framsóknarflokkurinn tæki þátt í myndun meirihluta í Reykjavík eftir slæma útkomu í kosningunum. Guðni svaraði að bragði „Hvers konar spurning er þetta eiginlega?!“ og var eðlilega nóg boðið. Hvernig væri nú að ráðherrar hættu að láta eins og þeir taki delluspurningar fyrirspurnarflokksins alvarlega og létu sér nægja að svara endaleysunni með þessum einfalda og ágæta hætti?