Aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn verðbólgu undanfarin misseri eru dæmdar til að mistakast ef tvennt kemur ekki til. Annars vegar er nauðsynlegt að allir flokkarnir sem buðu fram til borgarstjórnar og annarra sveitarstjórna á dögunum efni ekki loforðin sem þeir gáfu fyrir kosningar. Flest voru þau um aukin útgjöld, aukin útgjöld og svo aukin útgjöld. Hins vegar þarf ríkisstjórnin að spara í ríkisrekstrinum. Það hlýtur að mega spara einhvers staðar eftir að menn hafa aukið ríkisútgjöldin um nær 100 milljarða á föstu verðlagi frá árinu 1998. Já útgjöldin hafa aukist um hundraðþúsund milljónir á einum áratug. Á hverjum einasta degi síðustu 10 árin hafa menn fundið sér ný varanleg ríkisútgjöld upp á um 3 milljónir króna. Það er ævintýralegt. Hlutfallsleg útgjaldaaukning sveitarfélaganna er mjög svipuð á sama tíma. Menn geta gleymt því að ná tökum á „þenslunni“ ef þessi þróun verður ekki stöðvuð.
Nýjustu rökin gegn sparnaði í ríkisrekstrinum eru þau að stærsti hluti útgjaldanna séu laun starfsmanna. Vilja menn lækka þau, spyrja menn og hneykslunin leynir sér ekki. Eins og samningum við ríkisstarfsmenn er háttað er sjálfsagt ekki raunhæft að fækka krónunum sem þeir fá greiddar hver um sig þótt launamenn á almennum markaði þurfi oft að sætta sig við lægri tekjur þegar harðnar á dalnum. En þótt ekki sé hægt að minnka í launaumslögum ríkisstarfsmanna má fækka ríkisstarfsmönnunum. Það verður enginn viðsnúningur á þessu útgjaldaæði nema menn fækki eitthvað þeim verkefnum sem ríkið sinnir. Fyrsta skrefið er þó að ráðherrar hætti að láta ný verkefni eftir sér og samstarfsmönnum sínum í ráðuneytunum.
Eins og vikið var að hér fyrir nokkrum vikum voru gerðar sparnaðartillögur við fjárlagafrumvarpið 1994 í tímaritinu Efst á baugi. Tillögurnar voru í yfir 100 liðum og samsvara um 74 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Engin sparnaðartillagan hefur náð fram að ganga en hins vegar fylgdi tillögunum ein útgjaldatillaga því þá þegar blasti við að Íslendingar hlytu að taka á sig aukinn kostnað vegna varna landsins þótt ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar hafi tekist í ótrúlega langan tíma að láta Bandaríkin bera þann kostnað. Nú er útgjaldatillagan að verða að veruleika þótt engin sparnaðartillaga hefur hlotið náð fyrir augum þingmanna.
Þetta sýnir auðvitað hve tregðan gegn sparnaði í ríkisrekstrinum er mikil og um leið hve mikilvægt er að efna ekki nýrra útgjalda, jafnvel þótt þau eigi að vera tímabundin verkefni, tilraunaverkefni, samningur til tveggja ára, einkaframkvæmd með eilífðaráskrift skattagreiðenda eða hvað þeir nú heita allir nýju orðalepparnir fyrir aukin ríkisafskipti.