Fátæktin var mín fylgikona frá því eg kom í þennan heim… |
– Sr. Jón Þorláksson, úr Hjónaversi. |
Það er greinilega ekki aðeins Jón á Bægisá sem hefur átt fátæktina að fylgikonu. Íslenskar kosningar virðast hafa hlotið sömu örlög. Það er notuð sama uppstilling í hvert sinn sem efnt er til kosninga á Íslandi. Nokkrum dögum fyrir kjördag uppgötvast gríðarleg fátækt og fyrir hreina tilviljun er sami maður nærtækur með ljóskastara og áhyggjusvip. Fyrir hreina tilviljun hittist svo á, fáum dögum fyrir síðustu alþingiskosningar, að kynnt var ný bók, „Fátækt á Íslandi“, eftir Hörpu Njálsdóttur. Ólafur Ragnar Grímsson efndi til athafnar er hann tók við nýútkominni bókinni, boðaði fréttamenn til sín og það með þeim orðum að þar tæki hann við einu albesta fræðiriti sem hann hefði nokkurn tíma lesið – og eins og Vefþjóðviljinn sagði á sínum tíma þá var ekki annað að heyra en Ólafur hlyti hreinlega að vera Norðurlandameistari í hraðlestri sveina. Ólafur Ragnar hafði þarna geysimiklar áhyggjur af gríðarlegri fátækt sem hann sá í öllum áttum, en hefur að vísu ekki minnst mikið á síðan. Og nú eru kosningar eftir nokkra daga og þá vill svo til að dúkkar upp ný rannsókn á því hvaða hópar séu nú líklegastir til að glíma við fátækt, og við kynningu skýrslunnar hitta fréttamenn fyrir tilviljun Ólaf Ragnar Grímsson sem hefur miklar áhyggjur af sárri fátækt allra í kringum sig, þó kaupmáttur hárra sem lágra hafi aukist verulega ár frá ári, eiginlega alveg frá því að alnafni forsetans, Ólafur Ragnar Grímsson, lét af embætti fjármálaráðherra eftir farsælt starf.
Og raunar er þessi merkilega tilviljun, að Ólafur Ragnar finni alltaf mikla fátækt rétt fyrir allar kosningar, ekki eina tilviljunin sem er merkileg í þessu sambandi. Það var verulega athyglisvert fyrir þremur árum, þegar síðasta fátækt uppgötvaðist, að þá voru allir fjölmiðlar fullir af bók Hörpu Njálsdóttur, alveg þar til bókin var lesin og á það bent að í bókinni kom fram að „að vaxandi ásókn til hjálparstofnana vegna fátæktar hafi m.a. aukist eftir að Félagsþjónustan í Reykjavík þrengdi verulega heimildarbætur, m.a. skyndiaðstoð/neyðaraðstoð sem verið hafði til fjölda ára, þ.e. eftir breytingar á starfsreglum 1995.“ Það merkilega er, að alveg um leið og í ljós kom að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði látið það verða eitt af sínum fyrstu verkum í stóli borgarstjóra að breyta starfsreglum Félagsþjónustunnar í Reykjavík þannig að færri nytu stuðnings þaðan og fleiri þyrftu því að leita til félagasamtaka á borð við Mæðrastyrksnefnd, þá misstu fjölmiðlar alveg áhugann á bók Hörpu Njálsdóttur og hafa aldrei minnst á hana síðan.
En fréttamenn munu gera það að aðalatriði að ný rannsókn sýni að þeir sem missa vinnu eða heilsu séu líklegri til að búa við kröpp kjör en þeir sem hafa góðar tekjur og góða heilsu. Það munu fréttamönnum þykja sláandi tíðindi. Þeir munu hins vegar ekki segja frétt af því að forseti Íslands haldi sömu leiksýninguna á lokadögum hverrar kosningabaráttu.