Helgarsprokið 21. maí 2006

141. tbl. 10. árg.

Í Morgunblaðinu í dag er hálf önnur opna lögð undir átta spurningar blaðsins til oddvita framboðslistanna í Reykjavík. Af þessum átta spurningum snýr engin að því hvort oddvitinn ætli að lækka skatta á borgarbúa fái hann til þess völd. Í Reykjavík, eins og svo mörgum öðrum sveitarfélögum, er búið að hækka skatta svo mikið undanfarin kjörtímabil að það er ekki hægt að hækka þá lengur, skattarnir eru einfaldlega komnir að mörkum þess löglega. Og ef ekki væri fyrir þau lög sem segja fyrir um hámarksskatta sveitarfélaga, þá væru skattar ennþá hærri en þeir eru í Reykjavík og sama gilti um flest önnur sveitarfélög.

Oddvitarnir eru að vísu spurðir að því hvernig þeir vilji standa að fjármálastjórn borgarinnar og hvort sýna þurfi aðhald í rekstri borgarinnar til að vinna gegn vaxandi verðbólgu en blaðið hefur ekki hugmyndaflug til að spyrja hvort sýna eigi aðhald með það eitt fyrir augum að lækka skatta. En við hverju er að búast af einum helsta málsvara opinberra útgjalda á Íslandi? Af oddvitunum fimm í Morgunblaðinu, sem allir vilja stýra hinu ofvaxna og rándýra borgarkerfi, ætlar svo aðeins einn að lækka skatta, aðeins einn.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna ætlar að lækka fasteignagjöld og afnema holræsagjaldið í áföngum. Enginn hinna ætlar að lækka skatta og vísast eru þeir að bíða eftir því að heimildir sveitarfélaga til skattheimtu verði rýmkaðar. Svör hinna eru um sumt athyglisverð:
Svandís Svavarsdóttir oddviti Vinstri grænna, sem Morgunblaðið hefur krýnt stjörnu kosninganna, ætlar ekki að lækka skatta. Hún ætlar hinsvegar að reisa tónlistarhús, sem kostar varlega áætlað hálfan annan tug milljarða í byggingu og hún ætlar ekki að gera það fyrir eigin reikning heldur borgarbúa. Hún ætlar líka að fjölga tómum strætisvögnum og láta þá aka oftar á dag eftir tómum strætisvagnagötum sem verði lagðar víðar um bæinn sem verða þá ekki jafn tómar eftir því þær verða jú fullar af tómum strætisvögnum. Auk þess ætlar hún að þjóðnýta dagmæður svo eitthvað sé nefnt úr hennar svörum.
Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingar segir borgina hafa sýnt að hún taki á fjármálunum af mikilli ábyrgð. Er það? Hefur borgin ekki bara tekið ábyrgðina á fjármálunum af fólkinu með því einfaldlega að taka af því féð? Er það ekki öllu nær sannleikanum? En svo nærri sannleikanum kemst Dagur ekki hjálparlaust og Vefþjóðviljanum er því ljúft og skylt að rétta hér hjálparhönd og toga hann alla leið. Í svari sínu við annarri spurningu – sem er leiðandi útgjaldaspurning sem varla hefði getað orðið til annars staðar en á ritstjórn Morgunblaðsins – talar Dagur um leikskólabyltinguna sem gjörbreytt hafi lífsskilyrðum fjölskyldna í borginni. Og mikið rétt, þarna ratast Degi satt orð á munn! Flestar byltingar éta að vísu bara börnin sín en leikskólabyltingin, hún étur næstum öll börn, ekki bara sín. Það að vera étinn telst til gjörbreytingar á lífsskilyrðum svo þarna telst Dagur hafa sagt satt.
Ólafur F. Magnússon oddviti Frjálslynda flokksins ætlar að lækka gjöld, strætófargjöld og fasteignagjöld, en bara á suma, bara á þá sem honum finnst að eigi að borga minna. Hann ætlar að taka fé frá einum og færa öðrum því hann veit betur hvar féð á heima en eigendur þess.
Björn Ingi Hrafnsson oddviti Framsóknarflokks ætlar að borga út fimmtíuþúsund krónur á mánuði, en bara til sumra, ekki til annarra og eins og hjá Ólafi þá ræðst það af mati Björns Inga á því hvern vanti peninga og hver þurfi að losna við peninga. Björn Ingi hefur að vísu minnst á það á öðrum vettvangi að ef Borgin seldi hlut sinn í Landsvirkjun þá ættu allir borgarbúar að fá sinn hlut greiddan og hefur því verið haldið til haga hér.

Einu sinni var einsetning grunnskólans eitt helsta slagorð frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum. Einsetning grunnskóla var furðulegt átak sem miðaði að því að nýta húsnæði grunnskólanna sem allra verst. Allir stukku á þennan vagn og þetta varð að veruleika. Fyrir þessar kosningar er tíminn sá vagn sem allir frambjóðendur ætla að stökkva á inn í borgarstjórn. Tími fjölskyldnanna í borginni heitir það víst. Menn ætla að „afnema skutlið“, flytja tómstundastarfið inn í skólana og ditten og datten og allt á að leiða til þess að rétt upp úr klukkan fimm í eftirmiðdaginn geti allir í fjölskyldunni, foreldrar og börn, verið laus frá skyldustörfum og grillað saman í garðinum. Þetta er sannarlega metnaðarfullt, en getur nokkur staðið við þetta? Er það á valdi frambjóðenda að búa svo um hnútana að upp úr klukkan fimm geti allar fjölskyldur verði sameinaðar heima hjá sér? Er ekkert tómahljóð í svona tillögum frá frambjóðendum sem ætla sér ekkert annað með útgjöld borgarinnar nema auka þau? Því tíminn er í vissum skilningi peningar og þeim mun meiri peninga sem frambjóðendurnir taka frá fólkinu þeim mun minni tíma hefur fólkið fyrir sig. Frambjóðendur sem segjast ætla að spara borgarbúum tíma en segjast ekki ætla að lækka skatta eru bara að skrökva, það er ekkert annað orð til yfir það.

Það sem vantar mest af öllu í reykvísk stjórnmál er framboð sem lofar því einu að láta fólk í friði.