H ún er lífseig sú kenning að þegar „þensla“ er í efnahagslífinu eigi að hækka skatta á almenning til að draga úr eyðslu hans. Þó er skattahækkun ekki annað en tímabundin hækkun á eyðslufé stjórnmálamanna. Og ef sagan kennir eitthvað þá er það er það að því sem kemur inn í opinbera sjóði er umsvifalaust eytt. Oftar en ekki er svo einnig slegið lán úr á framkvæmdina því eignastaðan hefur batnað og þá er víst óhætt að bæta við skuldum. Það má til dæmis velta því fyrir sér hverjum þenslan um þessar mundir er að kenna? Ættu menn ekki fyrst og síðast staðnæmast við aukin og hærri húsnæðislán sem opinber stofnun tók að veita með ríkisábyrgð eftir síðustu kosningar? Á það ber einnig að líta að tekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa hækkað úr tæpum 40% í tæp 50% á síðustu 10 árum. Með öðrum orðum tekur hið opinbera, ríki og sveitarfélög, sífellt stærri hluta af kökunni. Það dugði ekki til að koma í veg fyrir þensluna sem það hefði þó átt að gera ef menn trúa því að hið opinbera geti slegið á þenslu með því að auka tekjur sínar.
Það er því alltaf ánægjulegt þegar stjórnmálamenn átta sig á því að þeir muni ekki síður eyða fjármunum en almenningur. Í viðtali við Blaðið í gær segir Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík, að það sé hans skoðun að þegar borginni takist loks að selja hlut sinn í Landsvirkjun eigi að skila söluandvirðinu til borgarbúa en borgin á 45% hlut á fyrirtækinu. Blaðið segir líklegt að um 250 þúsund krónur kæmu í hlut hvers og eins. Blaðið hefur þetta eftir Birni Inga:
Ég held hins vegar að eigendurnir sjálfir séu síst verr til þess fallnir að ráðstafa söluhagnaðinum en stjórnmálamenn. Það er alveg ljós að Reykjavíkurborg mun ekki læsa þessa peninga ofan í skúffu. Losun þeirra fjármuna mun því ekki frekar valda verðbólgu í höndum borgaranna en borgarfulltrúa.
Málið er einmitt að það eru [borgarbúar] sem eiga þennan hlut í Landsvirkjun, en ekki embættismenn í Ráðhúsinu. Það voru borgarbúar sem báru kostnaðinn af fjárfestingunni í Landsvirkjun og það er sjálfsagt að þeir njóti arðsins. |
Einhverjir stjórnmálamenn hafa kallað þessa tillögu Björns Inga tilraun til atkvæðakaupa. Björg Ingi er þó aðeins að tala um að skila eigum til borgaranna og gefa þeim sjálfum val um hvernig andvirðinu verður ráðstafað. Í stað þess að borgarfulltrúar ráðskist með það. Ef að það eru atkvæðakaup hvað má þá segja um útgjaldaloforðin sem frambjóðendur beina að einstökum hópum eins og eins og öldruðum, íþróttafólki og viðskiptavinum leikskóla, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hugmynd Björns Inga snýst ekki um að lokka hluta kjósenda á kostnað annarra eins og flest önnur kosningaloforð sem gefin hafa verið í þessari kosningabaráttu. Hugmyndin snýst um að færa vald frá borgarfulltrúum til borgaranna.