Mánudagur 8. maí 2006

128. tbl. 10. árg.

Kosningabaráttan í Reykjavík hefur verið merkilega tilþrifalítil. Hugsanlega er þó ekki von á miklum látum eða áhuga þegar framboðin leggja meiri áherslu á að yfirbjóða hvert annað í útgjaldahugmyndum en aðhaldstillögum. Virðist sem stórfelld skuldasöfnun í tíð vinstrimeirihlutans, og það þrátt fyrir ítrekaðar skattahækkanir borgarinnar, hafi ekki freistað minnihlutans til stórra loforða um aðhald, sparsemi og skattlækkana. Sem aftur kann að draga nokkuð úr sókn minnihlutans, þó um allt slíkt sé auðvitað erfitt að fullyrða. En allar kannanir benda til að minnihlutinn sé í talsverðri sókn. Í þessu samhengi var hins vegar fróðlegt að lesa grein Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Blaðinu á dögunum. Þar var nefnilega smáatriði sem er nokkuð lýsandi fyrir opinbera umræðu á Íslandi.

“Flest bendir til þess að Sjálfstæðisflokki takist ekki að vinna hreinan meirihluta í borginni”, skrifar þingmaðurinn og hefur ekki nokkurn fyrirvara á. Það vill hins vegar svo til, að undanfarna mánuði hafa allar skoðanakannanir í Reykjavík gefið þá niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn fái hreinan meirihluta, ýmist átta eða níu fulltrúa. Hitt er svo rétt, að skoðanakannanir segja ekkert annað en hvernig einhver óviss hópur manna segist ætla að kjósa og sanna ekki neitt um hugsanleg kosningaúrslit. Niðurstöður kosninga gætu orðið allt aðrar en kannanir benda til. En það breytir ekki því, að svo lengi sem allar skoðanakannanir benda til ákveðinnar niðurstöðu, jafnvel þó naumt standi í sumum og svarhlutfall lágt, þá er nokkuð langt gengið af alþingismanni að slá því bara fram, fyrirvaralaust og án nokkurra skýringa, að flest bendi til þveröfugrar niðurstöðu.

En þetta er það sem er algengt í íslenskri þjóðmálaumræðu. Það er bara eitthvað sagt og enginn spyr neins. Þetta á ekki eingöngu við um stjórnmálamenn sem sífellt telja sig þurfa að segja eitthvað. Fjölmiðlamenn eru litlu betri. Í fréttum er látlaust verið að fullyrða eitt og annað sem við nánari skoðun sést að er misskilningur, misminni, ónákvæmni, hálfsannleikur eða bein rangfærsla. Og sjaldnast er hirt um að leiðrétta, nema að leiðréttingin sé um eitthvað sem ekki skiptir máli í neinu almennu samhengi. Þegar slíkar rangfærslur eru eins algengar og raun ber vitni, þá fara þær að hafa talsverð áhrif á þá mynd sem fólk gerir sér af gangi mála. Ekki síst þess vegna, er ákaflega mikilvægt að fjölmiðlamönnum, ekki síður en stjórnmálamönnum, sé veitt markvisst aðhald. Sem auðvitað minnir á bækur Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2004 og Fjölmiðla 2005 sem af og til er minnst á hér, og báðar eru til sölu við vægu verði í bóksölu Andríkis.