Þriðjudagur 2. maí 2006

122. tbl. 10. árg.

Ígær ákvað Reykjavíkurborg að veita pólitísku félagi, Femínistafélagi Íslands, sérstaka jafnréttisviðurkenningu, sem bæði mun felast í peningum og svo auðvitað ómældum heiðri enda verðlaunin geysivirt meðal álfa og manna. Ríkisútvarpið ræddi við forsvarsmann þessa félags, talskonu kallaði hún sig víst, sem fagnaði auðvitað viðurkenningunni sem sýndi að félagið væri á réttri leið. Talsmaðurinn sagði að félagið væri róttækt og vildi rugga bátum – og auðvitað skiljanlegt að slíkt félag fagni opinberum viðurkenningum og flýti sér að leggja peningana í bankann.

Annað kom fram hjá talsmanninum. Það var að í upphafi hefði verið ákveðið að félagið hefði ekki merki heldur eingöngu lit. Bleikan lit sem reynt væri að hafa sem víðast. Skýringin á því væri sú að strákar hefðu bláan lit en stelpur bleikan.

Megin tilgangur félagsins er að „berjast gegn staðalímyndum“.

Annað sem femínistar hafa hátt um, er það sem stundum er nefnd kynbundinn launamunur. Þeim og mörgum öðrum yrði þá eflaust rórra við að kynna sér grein Helga Tómassonar tölfræðings og dósents við Háskóla Íslands, sem leiddi rök að því í öðru hefti tímaritsins Þjóðmála að engar upplýsingar lægju fyrir sem réttlættu ítrekaðar upphrópanir um „kynbundinn launamun“, Greinin er ýtarleg of fróðleg og upplýsandi fyrir þá sem telja að víðtækt samsæri eigi sér stað um að halda launum kvenna niðri en karla uppi.

Í þessu samhengi má minna á, að nú er hægt að kaupa stök hefti af Þjóðmálum í bóksölu Andríkis. Þau eru hvert öðru efnisríkara.

Sennilega er hægt að afsaka allt. Í Fréttablaðinu var á laugardaginn dregin upp mynd af „manni vikunnar“, Arnóri Sighvatssyni aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands. Segir í greininni að Arnór hafi á yngri árum lagst í kommúnisma og marxisma og verið „talsvert róttækur“ og „byltingarsinnaður“. En Fréttablaðið á svör við því. „Þetta er ekki óþekkt meðal þeirra sem hafa orðið öflugir hagfræðingar. Nægir þar að nefna menn eins Má Guðmundsson, fyrirrennara Arnórs, Jónas Haralz og Benjamín Eiríksson sem hurfu frá róttækni ungdómsáranna inn í djúp hagfræðinnar.“

Fréttablaðið gerir þá engan mun á því að vera „byltingarsinnaður“ fyrir sjötíu árum, uppúr kreppu, og svo því að verða það á síðustu hlutum tuttugustu aldar, þegar afleiðingarnar af framtakssemi byltingarmanna blasa við öllum sjáandi mönnum. Blaðið hikar ekki við að leggja þessa menn að jöfnu.

Afreksmenn geta lengi bætt sig. Í fyrirsögn greinar Ellerts B. Schrams í Fréttablaðinu  eru fjögur orð. Tvö þeirra eru „ég“.