Fimmtudagur 6. apríl 2006

96. tbl. 10. árg.
Arguably insufficiently tight fiscal policy, including generous personal income tax cuts, and an overvalued exchange rate contributed further to the overheating.
– Eitt virtasta matsfyrirtæki heims, Moody’s, virðist alveg ólesið í heildarverkum Stefáns Ólafssonar prófessors.

Það þarf ekki að lesa erlendar skýrslur til þess að fá að vita að skattar hafa verið lækkaðir verulega á Íslandi á undanförnum árum. Það geta allir vitað sem fylgst hafa með. Og það er líklega þess vegna sem stjórnarandstæðingar hafa skyndilega reynt að sannfæra fólk um hið gagnstæða með því að halda því fram að „skattbyrði“ hafi þyngst – og þá auðvitað yfirleitt án þess að útskýra hvað það þýði eða af hverju skattbyrðin hafi þyngst. Eins og ríkisskattstjóri hefur bent á, þá eru það hinar miklu launahækkanir sem fólk hefur ítrekað fengið undanfarin ár sem valda því að skattbyrði hefur þyngst, þar sem að persónuafsláttur verður minna hlutfall launanna þegar þau hafa hækkað jafn mikið og raun ber vitni. Þeir sem eru reiðir yfir því að laun hafi hækkað enn meira en persónuafsláttur virðast hins vegar ekki skilja alveg hugsunina með afslættinum. Hún er sú, að tekjuskattur verði aldrei aðgangsharðari en svo að hann skilji eftir í vasa launamannsins fjárhæð sem ætlað er að dugi fyrir einhverjum nauðsynjum. Það að launamaðurinn fái mikla hækkun tekna sinna kallar því ekki á hækkun á þessum afslætti, en hins vegar er í þessum skilningi eðlilegra að afslátturinn fylgi verðbólgu. Á undanförnum árum hefur hann hins vegar gert talsvert meira en það. Sem er öfugt við það sem var uppi á teningnum síðast þegar vinstristjórn sat í landinu. Og á þeim tíma óx kaupmáttur fólks auðvitað ekki heldur eins og hann hefur gert síðasta áratuginn. En auðvitað lætur hin vinstrisinnaða stjórnarandstaða hér eins og alltaf eins og hún myndi reynast skattgreiðendum betur en stjórnin gerir. Stjórnarandstaða sakar nú stjórnarflokkana um „skattpíningu“. Sjálf styður hún engar skattalækkanir sem ríkisstjórnin stendur fyrir.

Auðvitað þykir Vefþjóðviljanum skattar allt of háir. Sú skoðun breytir ekki þeirri staðreynd að ríkisstjórnin hefur staðið fyrir töluverðum skattalækkunum. Og það sem verra er, það er alveg fullreynt með það, að einu stjórnmálaflokkarnir sem eru í raun reiðubúnir að lækka skatta, þeir eru nú við völd. Stjórnarandstaðan talar og talar um skattpíningu. Hún styður hins vegar ekki skattalækkanir þegar þær eru lagðar til í raun og veru. Það dæmi sem einna mest er lýsandi tengist afnámi eignaskatts, sem er afar ánægjuleg aðgerð sem stjórnvöld stóðu fyrir og kemur raunar ekki hvað síst eldra fólki til góða; fólki sem á eignir en hefur lágar tekjur til að greiða skatta af eignunum. Stjórnarandstaðan studdi að sjálfsögðu ekki þá skattalækkun. Og ekki bara það. Í skattalögum voru lög sem nefnd voru lög um tekju- og eignaskatt. Þegar búið var að afnema eignaskattinn var lagt til á þingi að nafn laganna breyttist í lög um tekjuskatt. Í því fólst auðvitað einungis aðlögun að orðnum hlut. Meira að segja Samfylkingin, sem stundum þykist vera sérstaklega nútímalegur skattalækkanaflokkur, studdi ekki einu sinni þá nafnbreytingu, og segir sú afstaða mikið um hugarfarið þar á bæ. Tekjuskattslækkanir undanfarinna ára hefur stjórnarandstaðan svo auðvitað ekki verið ánægð með og hefur raunar að vissu leyti sýnt þann hug í verki með því að standa fyrir því innan R-listans að hækka útsvar borgarbúa til þess að skattalækkunin hyrfi í borgarsjóð en ekki til almennra borgarbúa.

En er stjórnarandstaðan ekki bara með einhverjar aðrar skattalækkanatillögur og þess vegna styður hún ekki stjórnartillögurnar? Jájá, fræðilega mætti ímynda sér að hún hefði einhverjar skattalækkunarhugmyndir sem hún raunverulega vildi að kæmu til framkvæmda. En góð og gegn stjórnarandstaða sem raunverulega hefði slíkar tillögur og teldi í einlægni að borgararnir væru „skattpíndir“ – eins og íslenska stjórnarandstaðan segir milli þess sem hún styður ekki skattalækkanafrumvörp – hún myndi hegða sér öðruvísi. Slík stjórnarandstaða myndi auðvitað geta lagt fram sínar eigin tillögur, en þegar stjórnarmeirihlutinn hefði þá fellt þær og lagt fram aðrar, þá myndi stjórnarandstaðan auðvitað styðja þær ef hún í raun teldi að skattar væru of háir.

Sem þeir eru. Þess vegna þarf að halda áfram að berjast fyrir skattalækkunum, en það er engin þörf á að afneita því að skattar hafa verið lækkaðir verulega á undanförnum árum. Það þarf bara að gera miklu meira af því.

Og þeir sem eru óánægðir með að „skattbyrði“ þyngist við miklar launahækkanir, þeir eiga þá að berjast fyrir flötum og afsláttalausum tekjuskatti. Eða þá því sem betra væri, að tekjuskatturinn yrði afnuminn. Þá þyrfti enginn að hafa áhyggjur af áhrifum launahækkana á „skattbyrði“.