Þetta hefur verið annasöm helgi hjá Ragnari H. Hall. Það eru ekki nema um sjöhundruð lögmenn til í landinu og því kannski ekki við öðru að búast en að hann hafi verið eini lögfræðingurinn sem Ríkisútvarpinu, NFS og Ríkissjónvarpinu datt í hug að fá til að setja fram sérfræðiálit á nýjasta skammaáliti Tryggva Gunnarssonar umboðsmanns alþingis. Núna var Tryggvi að setja fram sín sjónarmið vegna ráðningar ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu þar sem ekki var ráðin Helga Jónsdóttir borgarritari. Engin fréttastofanna þriggja sagði áhorfendum sínum frá því að hinn sérfróði álitsgjafi, hlutlausu fræðimaðurinn, rekur lögmannsstofuna Lögmenn Mörkinni ásamt þeim Gunnari og Gesti Jónssonum, bræðrum Helgu. En fréttamennirnir vissu það vitanlega. Þeir vissu auðvitað fyrirfram hvaða sérfræðisvar þeir fengju hjá Ragnari þegar þeir ákváðu, allir sem einn, að leita til hans og einskis annars. Þeir hafa líka vitað að Ragnar hafði skrifað skammagrein í Morgunblaðið þegar Helga var ekki ráðin og ætli þeir hafi ekki líka munað hvaða lögmaður varð sem reiðastur opinberlega þegar Ragnar Hall var ekki ráðinn í hæstarétt á sínum tíma. Var það ekki einmitt Gunnar Jónsson, bróðir Helgu?
Nú má Ragnar auðvitað hafa og setja fram sínar skoðanir á þessari ráðningu eins og öllum öðrum og missir ekki lýðræðislegan rétt sinn til þess við það að vera nátengdur öðrum málsaðilanum. En fréttamenn mega ekki fara að ráði sínu eins og gert var á öllum ljósvakafréttastofum um helgina. Ef þeir ætla að starfa svona, þá hefði einfaldlega verið hreinlegra að láta bara Helga H. Jónsson, eiginmann Helgu, gera fréttina sjálfan.
Það sem verst er, er að vinnubrögð eins og þessi eru alvanaleg á íslenskum fjölmiðlum og mjög alvarlegt raunar bæði hvað þau eru algeng og hversu lítið er gert af því að benda á þau. Frá því er ein undantekning, en vikulegra fjölmiðlapistla Ólafs Teits Guðnasonar hefur stundum verið að góðu getið í Vefþjóðviljanum og ekki að ástæðulausu. Bæði eru þar á ferð skrif sem bera af öllu öðru því sem ritað er um íslenska fjölmiðla og svo er hitt ekki síður mikilvægt að mjög er reynt að þegja skrif hans í hel. Pistlum Ólafs Teits hefur verið safnað á bók, Fjölmiðla 2004, og hann hefur greint frá því að væntanleg sé frá honum önnur slík, Fjölmiðlar 2005. Þetta eru óneitanlega ákaflega mikilvægar og merkar bækur fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslenskum þjóðmálum og hvernig þau eru matreidd ofan í landsmenn. Í ritstjórnargrein í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála bendir ritstjórinn, Jakob F. Ásgeirsson, á þá staðreynd að bók Ólafs Teits var hvergi ritdæmd opinberlega nema í því riti og eru þó skrifaðir ritdómar um flestar bækur sem gefnar eru út á Íslandi. „Er það áreiðanlega fádæma í vestrænu lýðræðislandi að bók um mikilsvert efni skuli skipulega hunsuð með þessum hætti“ segir Jakob og hefur sitthvað til síns máls. Fjölmiðlar 2004 fást hins vegar keyptir og heimsendir í bóksölu Andríkis og er full ástæða til að mæla með því að menn kynni sér skrif Ólafs Teits, því myndin sem fæst af samhengi íslenskra fjölmiðla er vissulega athyglisverð, svo ekki sé meira sagt.
Nú í morgun var Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar viðmælandi morgunþáttar NFS þar sem meðal annars var rætt um komandi borgarstjórnarkosningar. Ágúst var spurður út í stöðu framboðanna í borginni þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 54% fylgi í könnun sem Fréttablaðið birti um helgina. Honum þóttu þetta ekki mikil tíðindi og tjáði þáttarstjórnendum – og Kristni H. Gunnarssyni sem var líklega fenginn í þáttinn fyrir hönd hins stóra hóps óánægðra framsóknarmanna sem hefur fengið allt of lítið rými í fjölmiðlum – að sjálfstæðismenn hafi verið á svipuðu róli í skoðanakönnunum árið 2002. Nú er auðvitað engin hætta á því að varaformaður Samfylkingarinnar mæti í sjónvarp og beri á borð einhver ósannindi. Þó er það nú þannig að í könnun sem Gallup gerði fyrir réttum fjórum árum, í mars 2002, þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 37% fylgi en R-listinn með 61% fylgi. Ef 37% og 54% eru á svipuðu róli þá er Ágúst Ólafur ábyggilega líka réttilega kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar. Raunar er munurinn á 37% og 54% nokkru minni en á 500 viðstöddum fundarmönnum og 900 greiddum atkvæðum svo það er kannski von að Ágústi þyki þetta allt mjög sennilegt hjá sér.