S vanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hefur oft sett fram nýstárlegar og óvenjulegar tilgátur og kenningar á fræðasviði sínu. Hann hefur til dæmis jafnan verið óhræddur við að spá fyrir um þróun í stjórnmálalífinu, kosningaúrslit og þess háttar, með öðrum hætti en aðrir menn og hefur ekki látið það neitt á sig fá þótt niðurstaðan verði í veruleikanum oftast þveröfug við spár hans.
„Þetta samhengi hlutanna hefur verið flestum öðrum mönnum hulið. Flestir sem áður hafa fjallað um þessi mál hafa talið að útrás íslensks atvinnulífs byggði á öðrum forsendum en hátíðarræðum forsetans.“ |
En sérstaða Svans kemur ekki bara í ljós þegar hann segir fyrir um óorðna hluti. Hann á það líka til að bregða nýju og óvæntu ljósi á liðna tíð og samtímann. Dæmi um það er nýstárleg kenning hans um embætti forseta Íslands og mótandi áhrif þess á utanríkisstefnu Íslands. Þessa kenningu hefur hann verið að móta á síðustu árum, í embættistíð Ólafs Ragnars Grímssonar, og hefur afraksturinn meðal annars birst í greinum í Skírni, fjölmörgum viðtölum í fjölmiðlum – ekki síst í Ríkisútvarpinu – og nú síðast á málþingi Sagnfræðingafélagsins um forsetaembættið nú um helgina.
Kenning Svans er í stuttu máli á þá leið að eftir að Kalda stríðinu lauk hafi kjarninn í utanríkisstefnu Íslands verið útrás íslenskra fyrirtækja. Þessa stefnu megi rekja til stefnumörkunar Alþýðubandalagsins í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem nefnd var útflutningsleiðin. Þessar áherslur Ólafs Ragnars hafi átt stærstan þátt í sigri hans í forsetakosningunum 1996 og frá þeim tíma hafi ríkisstjórnir, þingmeirihluti og forystumenn íslenskra fyrirtækja keppst við að hrinda henni í framkvæmd. Árangurinn sé augljós og óumdeildur; íslensk fyrirtæki fjárfesti í stórum stíl vítt og breitt um heiminn með jákvæðum áhrifum á efnahagslíf landsmanna. Samhengið er augljóst að mati Svans; Ólafur hafi lagt grunninn að þessari stefnu, hann hafi talað fyrir henni í ræðu og riti og unnið að henni hörðum höndum í samtölum við erlenda ráðamenn og lykilmenn í alþjóðlegu atvinnulífi, sem hann hafi öðrum fremur persónulegt samband við. Þetta samhengi milli stefnumörkunar Ólafs Ragnars og utanríkisstefnunnar verði enn augljósara þegar litið sé til þess að Íslendingar hafi ekki gerst aðilar að ESB á valdatíma hans, en andstaða við slíka aðild sé einmitt í samræmi við grundvallarhugmyndir Ólafs.
Þetta samhengi hlutanna hefur verið flestum öðrum mönnum hulið. Flestir sem áður hafa fjallað um þessi mál hafa talið að útrás íslensks atvinnulífs byggði á öðrum forsendum en hátíðarræðum forsetans. Margir hafa haldið því fram að stóraukið frjálsræði í viðskiptum við önnur lönd hafi þar ráðið mestu, aðild að EES hafi valdið straumhvörfum og stórfelld einkavæðing og skattalækkanir á atvinnulífið hafi skapað íslenskum fyrirtækjum það svigrúm sem þau þurftu til að ná þeim styrk, sem gert hefur þeim kleift að hasla sér völl erlendis. Fáir hafa haldið því fram til þessa, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið leiðandi baráttumaður fyrir þessum breytingum. Þvert á móti minnast margir þess, að Ólafur Ragnar hafi öðrum fremur beitt sér gegn breytingum af þessu tagi meðan hann var alþingismaður og formaður Alþýðubandalagsins. Stuðningur hans við afnám hafta í milliríkjaviðskiptum, aðild að EES, einkavæðingu og skattalækkunum fór einhvern veginn fram hjá flestum sem fylgdust með íslenskum stjórnmálum á þeim tíma. Einhvern veginn hafa flestir eignað ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar þá stefnumörkun sem leiddi til þessara breytinga. Atburðarásin hefur einhvern veginn litið þannig út að þeir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, sem minnsta samleið hafa átt með Ólafi Ragnari, hafi haft forgöngu um breytingarnar, en þeir sem mesta samleið hafa átt með honum hafi verið harðastir í andstöðunni. Og flestir hafa talið að andstaða annarra en Ólafs Ragnars við aðild að ESB hafi ráðið því að til aðildarumsóknar að sambandinu hafi ekki komið. Enginn stjórnmálaflokkur nema Samfylkingin hefur lýst yfir áhuga á aðild og innan flokkanna hefur enginn haldið því fram að skoðun forsetans ráði þeirri afstöðu.
Nú myndi Svanur sjálfsagt halda því fram þessu væri haldið fram af hálfu Vefþjóðviljans vegna þess að myrk öfl í samfélaginu hafi jafnan viljað gera sem minnst úr hlut forsetaembættisins og Ólafs Ragnars að þessu leyti. Þessi öfl vilji af meinbægni skilgreina hlutverk embættisins sem þrengst til að ná sér niður á Ólafi, enda hafi þau aldrei sætt sig við að þjóðin hafi valið hann til forystu. Svanur telur vafalaust að þessi meinbægni birtist í því þegar rifjað er upp að samkvæmt orðum stjórnarskrár og stjórnskipunarvenju er aðkoma forsetans að framkvæmdarvaldinu, þar með talið mótun utanríkisstefnu, alfarið formleg en ekki efnisleg. Það er líka tóm meinbægni að halda því fram að forsendur útrásarinnar hafa verið breytingar sem pólitískir andstæðingar Ólafs hafa barist fyrir en hann sjálfur og samherjar hans barist gegn. Illkvittnar ábendingar af þessu tagi verða auðvitað léttvægar þegar rifjuð er upp „útflutningsleið“ Alþýðubandalagsins og rýnt í skálarræður Ólafs Ragnars frá síðustu árum.