Í hádegisfréttum NFS í dag var framhaldsfrétt vegna álits umboðsmanns Alþingis vegna skipunar ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Fréttin byggðist á viðtali við hæstaréttarlögmann, sem var harðorður í garð ráðamanna fyrir að taka ekki mark á niðurstöðum umboðsmanns í fjölmörgum málum og taldi hann tilvist þessa embættis og ýmis konar reglna á sviði stjórnsýsluréttar ekki þjóna miklum tilgangi ef stjórnvöld færu ekkert eftir þeim. Hér verður ekki fjallað efnislega um þetta atriði að sinni, en nauðsynlegt er þó að benda á að álit umboðsmanns eru lögfræðilegar álitsgerðir, en ekki bindandi niðurstaða fyrir aðila máls. Vilji menn fá slíka bindandi niðurstöðu í lögfræðilegum deilumálum, geta menn farið með mál fyrir dómstóla og þar eru þau til lykta leidd. Þeirri niðurstöðu verða menn að una hvort sem þeim líkar betur eða verr, og unnt er að fylgja niðurstöðum dómstóla eftir með atbeina ríkisvaldsins, til þess að tryggja að menn njóti þeirra réttinda sem þeim hafa verið dæmd. Hér er að þessu vikið vegna þess að í opinberri umræðu, m.a. í viðtalinu við hæstaréttarlögmanninn, er iðulega ruglað saman hlutverki umboðsmanns og dómstóla og látið eins og álit umboðsmanns eigi að hafa einhver réttaráhrif með sama hætti og dómar. Svo er ekki, lögin eru skýr hvað það varðar, og vilji menn breyta stöðu umboðsmanns að þessu leyti verða menn að byrja á byrjuninni og breyta lögunum í stað þess að kvarta í viðtölum á NFS.
Hitt er svo önnur spurning hvers vegna fréttastofa NFS leitað i til þessa tiltekna hæstaréttarlögmanns vegna þessa máls. Það var nefnilega ekki skýrt með neinum hætti hvers vegna til hans var leitað frekar en þeirra nokkur hundruð annarra manna á Íslandi sem hafa réttindi til málflutnings fyrir hæstarétti. Kannski hugsaði fréttamaðurinn með sér: Ragnar H. Hall varð fúll um árið vegna þess að hann var ekki skipaður hæstaréttardómari og kvartaði þá til umboðsmanns Alþingis. Hann hlýtur að vera fúll ennþá og örugglega til í að segja eitthvað neikvætt um ráðamenn. Kannski var það ekki þetta. Kannski hugsaði fréttamaðurinn bara með sér: Ragnar H. Hall rekur lögmannsstofu með tveimur bræðrum Helgu Jónsdóttur, sem var fúl yfir því að verða ekki skipuð ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Hann hlýtur líka að vera fúll yfir ráðningunni og örugglega til í að segja eitthvað neikvætt um ráðamenn.
Vefþjóðviljinn veit auðvitað ekki hvort hinn ágæti fréttamaður NFS hugsaði eitthvað á þessum nótum eða ekki. Engin leið er að átta sig á því af hvaða ástæðu fréttastofan leitaði til Ragnars Hall umfram aðra lögmenn. Það er ábyggilega ekkert verra að tala um þetta við Ragnar en aðra, en ef það er gert er ákveðin lágmarkskrafa að gerð sé grein fyrir stöðu Ragnars og tengslum við málin sem um er fjallað, þannig að áhorfendur eigi möguleika á því að meta hvort álit lögmannsins sé hlutlaust og fræðilegt eða litað af sterkum hagsmunum og tilfinningum, sem samkvæmt venjulegum stjórnsýslureglum gætu leitt til vanhæfis til umfjöllunar um mál.