M ikið vantar upp á að unglingar á vinnumarkaði þekki réttindi sín og skyldur, hafði fréttastöðin NFS eftir formanni VR, Gunnari Páli Pálssyni í gær í frétt um ungmenni á vinnumarkaði. Í fréttinni sagði einnig að hann hvetti foreldra til að vera vakandi og upplýsa börn sín um þessi mál. Vefþjóðviljinn leyfir sér að taka undir með Gunnari Páli í hvatningu hans til foreldra, það er mikilvægt að þeir leiðbeini börnum sínum um vinnumarkaðinn eins og svo margt annað sem fólk þarf að vera upplýst um. Ein af fyrstu skyldunum sem foreldrar gætu upplýst börn sín um er að þeim ber að greiða 1% heildarlauna sinna, það er að segja launa fyrir skatta, til verkalýðsfélags. Ungmenni sem ráða sig í vinnu sem fellur undir lögsögu VR þurfa því að greiða VR 1% heildarlaunanna, hvort sem þau kæra sig um að vera í VR eða ekki og hvort sem þau vilja greiða VR þessa fjárhæð eða ekki. Jafnvel ungmenni sem eru ósátt við kjör sín og telja VR standa sig illa neyðast til að greiða VR 1% heildarlauna sinna vilji þau starfa á því sviði sem heyrir undir VR.
Þetta er nokkuð sem VR mætti að ósekju fræða ungmennin um, en einhverra hluta vegna er þetta ekki eitt af því sem VR heldur að fólki á vef sínum. Þar er haldið að fólki alls kyns upplýsingum um réttindi þess, en sú nauðung sem felst í þeirri skyldu að greiða VR 1% heildarlaunanna er minna auglýst. Líklega væru einhverjir tilbúnir til að fá þetta eina prósent frekar í eigin vasa en að greiða það til skrifstofu VR, þar sem eru hvorki fleiri né færri en 47 starfsmenn samkvæmt vef félagsins.
Það hve miklir skattar – því það er ekki hægt að kalla skyldugreiðslurnar neitt annað en skatta – renna til VR sést ekki aðeins á umsvifum skrifstofunnar. Þetta sést líka á því óhófi sem einkennir sumt í starfseminni, svo sem gríðarlegar auglýsingaherferðir sem jafnvel tengjast félaginu lítið sem ekkert.
Annað stéttarfélag sem misnotar skyldugreiðslurnar jafnvel með enn grófari hætti er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, en þar gegnir Ögmundur Jónasson þingmaður vinstri grænna formennsku. Misnotkunin á BSRB er svo gróf að oft er vandséð hvar BSRB endar og VG tekur við, því þetta stéttarfélag er afar duglegt í baráttu fyrir sömu pólitískum málefnum og VG berst fyrir hverju sinni. Nýjasta dæmið er barátta BSRB gegn einkaeignarrétti á vatni og einkavæðingu veitufyrirtækja. BSRB hefur ekki sést fyrir í þessari baráttu sinni og jafnvel ekki látið sig muna um að falsa umsögn um frumvarp til vatnalaga. Á þetta benti meðal annars Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður fyrir nokkrum dögum þegar fram kom að Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi hafði ekki verið aðili að umsögn BSRB þrátt fyrir fullyrðingu BSRB um aðild félagsins. Hið sama hafði komið fram nokkru áður um Ungmennafélag Íslands.
Eftir síendurtekna misbeitingu sumra verkalýðsfélaga á aðstöðu sinni hlýtur að fara að koma að því að verkalýðsfélögin verði svipt þessari aðstöðu og látin sjálf um að afla sér félagsmanna og tekna. Ef sú væri raunin er næsta víst að þau færu varlegar í pólitískri baráttu sinni en létu sér nægja að beita sér fyrir hagsmunamálum félagsmanna sinna. Ef þau hins vegar héldu pólitísku baráttunni áfram þá gerði það ekkert til, launamenn gætu þá bara sagt skilið við félögin og hætt að styðja málstað sem þeim líkaði ekki.