Föstudagur 10. mars 2006

69. tbl. 10. árg.
Hljómurinn var mjög góður.
– Placido Domingo að loknum tónleikum í Egilshöll 13. mars 2005.

Á nægja viðstaddrar leyndi sér ekki á sjónvarpsmyndunum frá undirritun samnings ríkisins og Reykjavíkurborgar um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í gær. Með samningnum verður eigandi tónlistarhússins áskrifandi að tæpum 700 milljónum króna á ári frá skattgreiðendum – í 35 ár. Tvær milljónir króna á dag. Já leiga hefur víst hækkað ansi skarpt í miðbænum undanfarið. Því er ekki að undra að fulltrúar ríkis og borgar hafi verið ánægðir að geta tryggt sér þessi kostakjör næstu tólfþúsundogsjöhundruð daga.

Ánægja samningamannanna er ekki síst áhugaverð þegar það er haft í huga að stærsti aðilinn að samningnum var ekki viðstaddur. Þarna voru þeir sem þrýstu á um málið, þeir sem létu undan, þeir sem reisa húsið og þeir sem reka það. Það vantaði bara þá er greiða reikninginn. Hinn almenni skattgreiðandi var því miður upptekinn í vinnu sinni. Ekki veitir af því að menn haldi sig að vinnu þegar reikningur af þessu tagi bíður greiðslu. Og þeir sem eru rétt ný fæddir ættu að flýta sér að stækka. Árið 2041 verða þeir sem fæðast í ár búnir að greiða á annan áratug af launum sínum í tónlistarhúsið. Sextán ára maður fæddur 2025 mun árið 2041 greiða hærra útsvar og tekjuskatt vegna samningsins sem gerður var í gær en hann ella hefði gert. Áður en samningurinn sem borgarstjóri og menntamálaráðherra rituðu undir rennur út verður búið að skipta að minnsta kosti átta sinnum um þá sem hafa umboð til að gera samninga fyrir hönd skattgreiðenda. En það er sama hvað kjósendur velja næstu áratugina, alltaf skulu þeir sitja uppi með þennan samning.

Árið 1997 var ætlunin að byggja tónlistarhúsið í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna. Það þótti of dýrt og ekkert varð úr framkvæmdum. Síðan hafa bæst við tónleikasalir á borð við Salinn og Ými og einnig stór samkomuhús eins og Egilshöll sem Domingo gerði sér að góðu. Nú er hins vegar gerður samningur um byggingu tónlistarhúss sem hæglega má meta á 10 milljarða króna.

Stjórnmálamennirnir sem tóku þessa ákvörðun hafa með henni komið þeim skilaboðum skýrt út til hins almenna manns að allt tal um þenslu og eyðslusemi er ómarktækt. Það er engin ástæða til að gæta aðhalds.

Morgunblaðið, sem hefur undanfarnar vikur talið sig sjá rjúka víða úr íslensku efnahagslífi vegna eyðslu og lántöku, mun svo vafalítið fagna því í leiðara í dag að þessari olíu hafi verið skvett á eldinn.