Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar tók einn kafla í gær. Samfylkingarmenn koma alltaf öðru hverju og láta eins og þeim þyki sérstaklega brýnt að setja reglur um stjórnmálaflokka, störf þeirra, fjármögnun og hver veit hvað. Þetta gera þeir í trausti þess að ekkert verði gert en að þeir geti kennt hinum um það. Ef að Jóhanna Sigurðardóttir vill að einhverjar utanaðkomandi reglur gildi um starf stjórnmálaflokka þá gæti hún auðvitað óskað eftir að þær yrðu teknar upp innan Samfylkingarinnar og varla myndi standa á viðbrögðunum í þeim nútímalega flokki. Ef að Jóhanna Sigurðardóttir meinti eitthvað með tali sínu, þá hefði hún auðvitað gengið af göflunum eftir að kosinn var varaformaður í Samfylkingunni með þeim eindæmum að því er einfaldast lýst með því að maður hafi verið kosinn með 900 atkvæðum á 500 manna fundi. En Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki sagt aukatekið orð um það frekar en um annað sem að Samfylkingunni snýr, enda gera Samfylkingarmenn ekki kröfur um rannsóknarnefndir og úttektir nema þar sem það á ekki við og slíkum kröfum verður ekki sinnt.
Og hverjir styrkja Samfylkinguna eða frambjóðendur hennar? Það fær aldrei neinn að vita. Tökum nú bara þann frambjóðanda sem er óspilltastur alls í heiminum, Dag B. Eggertsson. Hverjir styrktu hann í prófkjöri Samfylkingarinnar á dögunum? Og ef hann kemur með frasana um að allt hafi verið rekið á mikilli vinnu nokkurra vina, hverjir voru þeir? Skyldi ekki alveg eins mega nota spillingar-rökin og uppi-á-borðinu-rökin til að fá það fram? Maður sem sækir um lóð hjá borginni en fær ekki, fær hann ekki að vita hvort sá sem fékk lóðina var kannski duglegasti sjálfboðaliði Dags? Ef að Samfylkingarmenn meina eitthvað með endalausu tali sínu um reglur og spillingu, af hverju er þá allt hjúpað leyndarmekki hjá þeim og fyrirspurnum svarað með orðagjálfri?
Auðvitað telur Vefþjóðviljinn að ekki eigi að vera reglur um birtingu á upplýsingum eins og þessum. Stjórnmálaflokkar eru einfaldlega frjáls félagasamtök og ef að fólk ákveður að velja frambjóðendur af lista einhvers þeirra á þing eða í sveitarstjórn þá er það þess val.
Stígamót sögðu áhyggjufull frá því í gær að lækkað hefði það hlutfall skjólstæðinga þeirra sem kæra mál sín til lögreglu. Nú er auðvitað ekki gott að fullyrða um það af hverju svo er, enda geta hvers kyns persónulegar ástæður ráðið ákvörðun hvers og eins. En ætli sífelldur málflutningur um að slík mál fáist vart rannsökuð, nær aldrei sé ákært, sakfellingar þekkist vart og allt sé gert kærandanum til mótlætis, kunni nú ekki að hafa áhrif. Og hvaða áhrif ætli ítrekaðar og rangar fullyrðingar um að menn fáist ekki dæmdir fyrir brot eins og þessi mál snúast um, hafi nú á hugsanagang og ákvarðanir hugsanlegra brotamanna? Staðreyndin er sú, að þvert á það sem oft er látið í veðri vaka hafa dómstólar heldur dregið úr sönnunarkröfum í málum af þessu tagi.
Í gærkvöldi bauð Kastljós Ríkissjónvarpsins upp skyndihjálparsýningu sem kynnt var með þessum orðum : „Komi maður að manneskju sem hefur drukknað er mikilvægt að bregðast hratt og rétt við“. Og viðmælendur fréttamanns síðar boðnir velkomnir með orðunum „þið ætlið að kenna okkur í dag hvernig maður á að bregðast við ef maður kemur að einhverjum sem hefur drukknað“.