Í síðustu viku stóð utanríkisráðherra fyrir heimsókn til Indlands. Þrátt fyrir að hafa fengið að hitta aðstoðar ráðherra á Indlandi er ef til vill ekki mikils að vænta af slíkum heimsóknum, enda hafa ráðmenn bæði á Indlandi og Íslandi fylgt þeirri heillavænlegu stefnu að draga úr áhrifum sínum.
Þrátt fyrir að fátt sé líkt með Indlandi og Íslandi hvað varðar áþreifanlegar og mælanlega stærðir, eru ýmsar hliðstæður í sögu þjóðanna frá miðri síðustu öld, auk þess sem forsetar beggja þjóða ýta gjarnan undir hláturmildi barna. Indland fékk sjálfstæði árið 1947 eða þremur árum á eftir Íslendingum, þá hafði verslun þar í landi ekki verið frjáls frá árinu 1940.
Í fyrirlestri sem franski rithöfundurinn Benjamin Constant hélt snemma á 19. öld bar hann sama frelsi að fornu og nýju. Þar hélt hann því fram að frelsi til dæmis í Grikklandi til forna hefði fólgist í þjóðfrelsi, það er frelsi hóps til að taka sameiginlega ákvörðun í málum sínum, en frelsi nútímamanna sé einstaklingsfrelsi, það er frelsi einstaklinga til að ráða hvernig þeir haga eigin lífi án þess að ganga á rétt annarra. Það frelsi sem þjóðfrelsishreyfingar á 19. og 20. öld börðust fyrir var sem von er frelsi í fornum skilningi, en þeim sem fóru þar fremstir sást oft yfir mikilvægi einstaklingsfrelsisins. Bæði Ísland og Indland notuðu nýfengið þjóðfrelsi sitt til að hamla einstaklingsfrelsi og þá einkum á sviði viðskipta.
Indverjar tóku upp áætlunarbúskap og ríkisafskiptin undu upp á sig sem spírall. Indverjar reyndu að koma á frjálsum gjaldeyrisviðskiptum árin 1957 og 1968 en gáfust upp í bæði skiptin. Sem er ekki ósvipað og hér á landi. Hagvöxtur á Íslandi var bærilegur fyrstu rúma fjóra áratugi sjálfstæðis einkum vegna stækkunar fiskveiðilögsögunnar, nýtingar orkugjafa landsins og aukinnar atvinnuþátttöku kvenna. Á Indlandi var hagvöxtur fremur hægur, einungis 3,6% á ári. Á 9. áratugnum var efnahagsfrelsi beggja þjóða orðið mjög lítið og haftastefna undangenginna ára komin í þrot.
Báðar þjóðir höfðu reynt að auka frelsi í skrefum á níunda áratugnum en hvorug þjóðin tók skrefið til fulls fyrr en í upphafi hins tíunda, Ísland í kjölfar hruns þorskstofnsins og Indland í kjölfar efnahagskrísu árið 1991.
Arvind Panagariya fjallar um efnahagsumbæturnar í Indlandi í The Triumph of Indias Market Reforms, frá Cato Institute. Hann bendir á að eftir að Indverjar hófu efnahagsumbætur árið 1991 hefur hagvöxtur ekki einasta verið meiri en áður, 6,1%, heldur hefur hann líka verið jafnari. Þetta höfum við raunar einnig séð á Íslandi þar sem sveiflur í hagkerfinu hafa verið minni á síðastliðnum árum en áður þekktist.
En hvort að ráðherra takist að koma á viðskiptum á Indlandi eða ekki er ef til vill ekki sanngjarn mælikvarði á mikilvægi heimsókna sem þessarar og lýsir sennilega betur gamaldags hugsunarhætti þeirra sem telja að stjórnmálamenn eigi að vasast í atvinnulífinu. Íslensk fyrirtæki geta og eru að koma á fót starfsemi á Indlandi.