Föstudagur 3. mars 2006

62. tbl. 10. árg.
Nóatúni var með fjórum bréfum gefinn kostur á að tjá sig og færa rök fyrir fullyrðingunni „bestir í fiski“. Nóatún svaraði fyrsta bréfinu með því að tjá Neytendastofu að fullyrðingin yrði ekki notuð aftur fyrr en lögð hefðu verið fram gögn henni til stuðnings. Það hefur ekki verið gert en þrátt fyrir það hefur fullyrðingin haldið áfram að birtast í auglýsingum Nóatúns.
– Úr ákvörðun Neytendastofu um að „beita viðurlögum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins“ í máli Nóatúns.

O rkuveita Reykjavíkur hefur á undanförnum árum veitt viðurkenningu fyrir bestu jólaseríuna. Umhverfisráðuneytið veitir árlega verðlaun fyrir bestu umfjöllunina um umhverfismál. Viðurkenningarskjöl og orður streyma frá forseta Íslands. Jafnréttisráð og -nefndir veita viðurkenningar út og suður. Er þá aðeins fátt eitt talið af því hvernig hið opinbera svalar þörf sinni til að hylla þá bestu á ýmsum sviðum.

Já Nótatúnsmenn sögðu að þeir væru „bestir í fiski“. Kannski af því að þeir telja sig betri í fiski en kjöti og káli eða af því að þeir eru sannfærðir um að fiskurinn þeirra sé sá besti. En Nóatúnsmenn mega ekki hafa þá skoðun að þeir séu bestir á sínu sviði. Að minnsta kosti mega þeir ekki hafa hátt um þá skoðun sína. Neytendur létu sér þó hvergi bregða enda gera menn sér almennt grein fyrir að auglýsendur eru ekki hlutlausir gagnvart því sem þeir auglýsa. Svonefnd Neytendastofa telur hins vegar að neytendur séu viljalaus verkfæri í höndum auglýsenda.

Já það er til opinber stofnun sem hefur eftirlit með því að kaupmenn slái sjálfum sér ekki of mikla gullhamra. Neytendastofa sendi Nótatúni fjögur bréf. Í bréfunum var farið fram á að Nóatúnsmenn sönnuðu að þeir væru bestir í fiski. Þegar sú sönnun fékkst ekki var búðin beitt „viðurlögum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins“ og sektuð um hálfa milljón.

Ætli einhver viðskiptavinur Nóatúns hafi farið með auglýsinguna að fiskborðinu og beðið um sönnun á þeirri skoðun Nóatúnsmanna að þeir séu „bestir í fiski“? Ætli það. Ætli menn þurfi ekki að starfa í sýndarveruleika opinberra eftirlitsstofnana til að láta sér detta slíkt í hug?

Neytendastofa virðist líta á neytendur sem einn mann í stað marga ólíkra. Eins og sú trú sé ekki nógu dularfull þá lítur Neytendastofa einnig svo á að hún sé fulltrúi Neytandans hér á Jörðinni og viti í öllum tilfellum hvað honum er fyrir bestu. Að sjálfsögðu er ekki gerð krafa um að Neytendastofa sanni að hún viti allt best. Ekki frekar en gerð er krafa um að hið opinbera sanni þá skoðun sína að besta jólasérían sé í Árbænum eða Morgunblaðið hafi fjallað best um umhverfismál.