Fimmtudagur 2. mars 2006

61. tbl. 10. árg.

N okkrir alþingismenn og allir konur munu hafa komið saman í Borgarleikhúsinu í gær og lesið upp leikrit. Morgunblaðið segir auðvitað að lesturinn hafi gert mikla lukku eins og blaðið segir um allt sem hópar kvenna gera, og kannski er það satt líka. Vel getur Vefþjóðviljinn viðurkennt að hafa ekki heyrt séð eða lesið þetta leikrit og mikið mun ganga á í veröldinni áður en að það breytist, svo ekki kann hann við að gera lítið úr hugsanlegu listgildi, að minnsta kosti ekki upphátt. En að þessu sögðu þá skal þó spurt, og án frekari málalenginga, hvort það sé virkilega ekkert sem þingmenn láta ekki hafa sig út í.

Raunar er það svo að stjórnmálamenn eru margir hverjir í ani að koma sér á framfæri og virðast fáum óskum hafna, ef þær fela í sér myndbirtingu. Frá þessu er að vísu heiðarleg undantekning eins og hinn nútímalegi umræðustjórnmálamaður Dagur B. Eggertsson sem neitar að taka þátt í umræðum um erfið borgarmál en er að vísu mikill fróðleiksbrunnur þegar kemur að hverju því sem kemur stjórnmálum ekki við. Þessi eiginleiki margra stjórnmálamanna verður enn erfiðari viðfangs þegar dregur að kosningum. Og raunar er það ekki örvæntingin um að komast í fjölmiðla sem er verst. Upp á síðkastið hefur undanlátssemi þeirra við kröfur hagsmunahópa orðið enn verri. Það er eiginlega engu væli hafnað lengur. Það er sífellt verið að niðurgreiða fleira og eftir að fallandi borgarstjóri ákvað að semja eins og óður maður um launahækkanir allra sem líklegir væru til að geta kosið í prófkjöri Samfylkingarinnar hefur hver sveitarstjórnin á eftir annarri rokið til og bætt peningum ofaná nýgerða kjarasamninga sömu stétta. Frekjuhópar mæta í fréttatíma og leggja þar athugasemdalaust fram kröfur sínar sem stjórnmálamenn ganga svo að áður en við er litið. Og fréttamenn spyrja ekki einu sinni hvers vegna skattgreiðendur ættu nú að enn og aftur að ganga að einni kröfunni til. „Fyrirgefið, hvers vegna á að leggja aukna byrði á vinnandi fólk svo þér fáið þetta áhugamál yðar ódýrar?“ – af hverju spyr aldrei nokkur fréttamaður slíkrar spurningar?

Nú þegar kosningar nálgast þá er öruggt að styttist í eina ósmekklegustu fjárkúgunaraðferð sem hagsmunahópar og aðrar frekjur beita. Það eru gefin út sérstök blöð og þau senda svo spurningar til allra flokka: Hvað ætlið þið að gera fyrir okkur? Svo er látið fylgja sögunni að einnig verði birt svör frá hinum, í þeirri von að nú hefjist allsherjaruppboð. Og stjórnmálamennirnir verða varnarlitlir. Þeir hugsa auðvitað með sér að blaðið fari til frekjanna sem taki upp reiknivélina og greiði atkvæði samkvæmt niðurstöðunni. Hinn almenni borgari sjái aldrei svörin og muni því ekki sjá á hvaða loforðamanni hann eigi helst að vara sig. Þá verður nú freistandi fyrir stjórnmálamennina að sýna nú sem mestan „skilning“ á málefnum viðkomandi frekjuhóps. Og enginn þorir að neita að láta stilla sér upp við vegg með þessum hætti.

Mætti Vefþjóðviljinn leggja til að stjórnmálaflokkarnir tækju sig nú saman um að neita að taka þátt í svona kúgunaryfirheyrslum. Það væri að minnsta kosti svolítil vísbending um að þeim fyndist koma til greina að sýna einhverja ábyrgð í fjármálum.