Um þessar mundir geta landsmenn fengið sig sadda af frambjóðendum í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það má vart opna dagblað án þess að þar sé frambjóðandi með svuntu tilbúinn til að sýna kjósendum að hann sé svo mannlegur og eðlilegur að hann eldi heima hjá sér. En þótt frambjóðendur haldi að þeir séu kosnir út á uppskriftir fremur en stefnumál langar Vefþjóðviljann að víkja að einu máli sem frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík greinir á um. Það er hin gamla glíma vinstri manna við þá kenningu að hádegisverðurinn sé ókeypis ef hið opinbera reiðir hann fram.
Frambjóðendur hafa hver á eftir öðrum stokkið á þá hugmynd að gera skólamáltíðir „ókeypis“. Þetta er svona alveg dæmigert útgjaldamál sem einhver frambjóðandi nefnir í prófkjöri og enginn þorir að vera á móti af ótta við að styggja þá sem njóta mundu góðs af hugmyndinni. Því það er að sjálfsögðu aldrei nefnt hvað þetta kostar eða hvað þarf að hækka skattana mikið til að eiga fyrir þessu. En viti menn. Stefán Jón Hafstein benti einfaldlega á það í vikunni að það væri ekki ástæða til að niðurgreiða matinn að fullu ofan í krakka sem ekið er í skólann á jeppum af dýrustu gerð. Hann benti jafnframt á að hafi einhver í raun ekki efni á skólamáltíð komi félagsþjónustan til móts við foreldra.
Það er alltof sjaldgæft að frambjóðendur bjóði útgjaldapésunum birginn með þessum hætti. Reykjavíkurborg niðurgreiðir skólamáltíðir nú þegar um 100 milljónir króna en heildarkostnaðurinn er um 580 milljónir króna. Þeir sem lofa ókeypis skólamáltíðum eru því að biðja um að 4.800 króna reikningur verði sendur hverjum einasta Reykvíkingi til viðbótar því hann greiðir nú þegar í skatta til borgarinnar. Ekki er þó hægt að hækka útsvarið því það er nú þegar komið að mörkum hins löglega.
Einn frambjóðandinn í prófkjöri Samfylkingarinnar heitir Björk Vilhelmsdóttir og var áður vinstrigræn en rakst illa í þeim flokki. Í einhverju blaðinu mátti nýlega sjá hana kynna helstu réttina á heimilismatseðlinum. Á mynd af frambjóðandanum mátti einnig sjá eldavél heimilisins. Sem væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að um var að ræða eldavél sem knúin er útlendum, innfluttum, óendurnýjanlegum orkugjafa. Það er að segja gasi. Við bruna á þessu gasi verða til svonefndar gróðurhúsalofttegundir. Þær myndast hins vegar ekki ef menn hita undir pottunum með raforku úr íslenskum vatnsaflsvirkjunum. En Björk er auðvitað hætt að vera vinstrigræn og er bara vinstri um þessar mundir.
Vefþjóðviljann rekur einnig minni til þess að fyrir nokkrum árum kom þessi sama eldavél fram í sjónvarpsþætti Völu Matt sem mætt var á heimili Bjarkar til að fylgjast með sultu- og saftgerð úr berjum sem Björk og maður hennar höfðu tínt vítt og breitt um landið. Vafalaust hafa þau farið á bíl á þessum ferðum sínum, knúnum innfluttum og óendurnýjanlegum orkugjafa sem gefur líka frá sér gróðurhúsalofttegundir. Formaður vinstrigrænna hefur þó sýnt fram á að þegar allt er talið er öruggara og fljótlegra að fara fótgangandi þvert yfir landið en á bíl. En það var eftir Björk var farin úr flokknum.
En framleiðslu Bjarkar á gróðurhúsalofttegundum sleppir kannski ekki við brennslu olíu og gass. Stundum er talað um gróðurhúsaáhrif af manna völdum. Af tillitssemi við lesendur mun Vefþjóðviljinn þó ekki rekja það til enda hvernig þau áhrif lýsa sér ef menn borða of mikið af berjum.