Gaman hvernig fjölmiðlar taka stjórnmálaflokkana ólíkum tökum. Hefur einhver þeirra minnst á það, eins og það skipti máli, að ekki á morgun heldur hinn muni Samfylkingin hafna konu sem borgarstjóraefni sínu við komandi kosningar? Og ekki bara einhveri konu heldur hreinlega núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Hefur einhver heyrt frasa um að Samfylkingin „hafni konum“? Hefur einhver kallað á konur innan Samfylkingarinnar til að gráta opinberlega, eins og aldrei verður lát á þegar einhverri konu í Sjálfstæðisflokknum gengur ekki eins vel og hún hefði kosið? Hefur einhver sagt í hæðnistóni að það séu „greinilega allir þeir hæfustu í Samfylkingunni karlar“?
Nei ekki nokkur maður. En ef konu í Sjálfstæðisflokknum gengur ekki sérlega vel í prófkjöri, verður kannski neðarlega ásamt hópi karlmanna sem að vísu enginn hefur samúð með, þá vantar nú ekki greinarnar, viðtölin, leiðarana og staksteinana. Þegar Samfylkingin mun á laugardaginn hafna þeirri konu sem í dag gegnir embætti borgarstjórans í Reykjavík mun umræðan um það ekki ná tíunda hluta þess æsings sem búinn var til yfir því að nýjar konur náðu ekki hæstu sætum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Og enginn spyr um stuðning kvennalistakonunnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við kvennalistakonuna Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.
Fjölmiðlar í eigu 365-einhvers neituðu að birta auglýsingar Stefáns Jóns Hafsteins vegna komandi prófkjörs Samfylkingarinnar. Helsti keppinautur hans, Baugur B. Eggertsson, vildi ekki tjá sig um málið þegar Vefþjóðviljinn náði nútímalegu og spennandi tali af honum í fersku og dýnamísku þekkingarþorpi í heilbrigðri Vatnsmýri. Hann sagðist vera upptekinn við átakið „Samráð gegn frösum – skýrt skiljanlegt mál, gagnort, greinargott, knappt,“ sem hann hefði nýverið hleypt af stokkunum.
FFormaður Framsóknarflokksins hefur lýst því yfir að Ísland verði komið í Evrópusambandið árið 2015. Ein spurning: Hvers vegna er Framsóknarflokkurinn að velta fyrir sér hvernig umhorfs verður á Íslandi árið 2015? – En annars var gaman að því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mætti strax í fjölmiðla og fagnaði kenningu Halldórs og sagði fyrir löngu orðið tímabært að einhver segði þetta. Hún var auðvitað ekki spurð hvers vegna Samfylkingin hefði þá reynt að segja sem minnst um Evrópumál í síðustu kosningum. Og enginn þeirra gerði athugasemd þegar hún sló því fram að það hefði verið sérstakur „héraháttur“ í íslenskum stjórnmálamönnum í Evrópumálum undanfarin ár.
Já þau geta skemmt sér vel við að ræða hérahátt annarra, Ingibjörg Sólrún og Halldór Ásgrímsson. Sem bæði sátu hjá um EES-samninginn.