Þ að mun vera alger tilviljun að prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík er eftir fáeina daga og að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri gaf í gær hestamannafélaginu Fáki „formlegt fyrirheit“ um nýja aðstöðu fyrir hross, eins og Morgunblaðið hefur greint frá. Það bara hittist svona á. Alveg með sama hætti og það hittist þannig á að borgin fór í auglýsingaherferð um borgarstjóra og eyra hans skömmu fyrir prófkjörið. Þetta eru tilviljanir sem sýna að raunveruleikinn er ótrúlegri en nokkur skáldskapur.
Annar keppinautur um fyrsta sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, Stefán Jón Hafstein, skeiðar nú fram á völlinn og segist sjá það sem „raunhæfan möguleika“ að sveitarfélögin taki við rekstri framhaldsskólanna af ríkinu, að því er segir í Blaðinu. Sveitarfélögin tóku fyrir nokkrum árum við rekstri grunnskólanna af ríkinu og afleiðingin hefur að því er virðist orðið sú að rekstur skólanna hefur farið úr böndunum, því að sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavík, nota þessa tilfærslu sem eilífa röksemd fyrir þeim skattahækkunum sem þau standa fyrir. Breytir þá engu þótt þau hafi í upphafi fengið skattfé sem talið var hæfilegt til að reka skólana. Það kom einfaldlega í ljós að sveitarfélögin ráða ekki við fleiri verkefni, enda létu þau sér ekki nægja að hækka skatta heldur bættu þau líka í skuldirnar í miðju góðærinu.
Það er vandséð hvers vegna einhver ætti að vera nokkru bættari þótt sveitarfélögin tækju að sér rekstur framhaldsskólanna af ríkinu og miðað við reynsluna af grunnskólanum er líklegast að afleiðingarnar yrðu aðeins dýrari skóli og hærri skattar. Ef Stefán Jón vildi ná fram einhverjum jákvæðum breytingum í rekstri framhaldsskólanna hefði hann átt að leggja til að framhaldsskólarnir væru færðir frá ríkinu til einkaaðila en ekki annars opinbers aðila. Hinir nútímalegu jafnaðarmenn hafa hins vegar lítinn áhuga á alvöru lausnum, þeim finnst meira gaman að tala. Sumir þeirra tala um tilfærslur verkefna frá hinu opinbera til hins opinbera og sumir tala þeir um að tala.
Svo skemmtilega vill til að síðarnefndi hópurinn á einnig sinn fulltrúa í baráttunni um efsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, en sá fulltrúi er vitaskuld Dagur B. Eggertsson. Dagur nam samræðustjórnmál og pólitísk hrossakaup við stjörnufræðirannsóknastöð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Vatnsmýrinni og stefnir að útskrift í vor. Ingibjörg bindur miklar vonir við þennan gæðing sinn og er sannfærð um að hann muni tala mikið og segja fátt á næstunni. Aðrir sem til þekkja telja að hann kunni að reynast heldur brokkgengur, en það kann að stafa af því að þeir láti villa sér sýn hvað hann hefur óvenjulegan makka af ekki eldri manni að vera.