Í helgarútgáfu The Australian þessa helgi er fjallað um loftslagsmál, rætt við sérfræðinga á sviði loftslagsmála og rætt um aðgerðir gegn hugsanlegri hættu af völdum hugsanlegra loftslagsbreytinga af manna völdum. Sjávarjarðeðlisfræðingurinn dr. Bob Carter prófessor við James Cook háskólann í Queensland er einn þeirra sem rætt er við, en hann er í hópi þeirra fræðimanna sem lýst hefur efasemdum um þær kenningar sem aðgerðir á borð við Kyoto sáttmálann byggjast á. The Australian hefur eftir Carter að til lengri tíma litið séu áhrif mannsins á loftslagsbreytingar varla mælanleg. Rannsóknir á ískjörnum úr Suðurskautslandinu segir hann að sýni með skýrum hætti að þegar litið sé til 100 ára tímabila séu hitabreytingar á borð við þær sem við upplifum nú ekki óvenjulegar. Carter segir að koltvísýringur í andrúmsloftinu sé ekki helsta ástæða hitabreytinga og að áhrif mannsins á hitastigið, séu þau á annað borð til staðar, þá séu þau svo lítil að þau mælist ekki á heimsvísu og ekki sé hægt að greina þau frá náttúrulegum sveiflum.
„Að hans sögn verðum við í framtíðinni að laga okkur að náttúrulegum sveiflum í loftslagi og hann segir það ímyndun að hættulegir atburðir í loftslagi séu nýir af nálinni og að hægt sé að koma í veg fyrir þá með því að draga úr útblæstri koltvísýrings.“ |
Annar ástralskur vísindamaður, William Kininmonth, veðurfræðingur sem stýrði um árabil Loftslagsstofnun Ástralíu, hefur lýst svipuðum sjónarmiðum og til hans er vitnað í greininni í The Australian. Kininmonth ritaði sjálfur grein í september síðast liðnum í The Sidney Morning Herald, þar sem hann gagnrýndi kenningar um áhrif mannsins á loftslagið. Hann hafnar því ekki að breytingar eigi sér stað, segir þvert á móti að skýrar sannanir séu fyrir því að hiti á jörðinni hafi farið hækkandi og ís hafi farið minnkandi í nær tvær aldir. Vandinn sé hins vegar að greina ástæður þessara breytinga og spá fyrir um framhaldið. Náttúruleg fyrirbæri hafi áhrif á loftslag jarðar, þar á meðal breyting á sporbaug himintungla um sólina, sveiflur í geislun sólar og eldgos.
Kininmonth segir að vísindin sem tengi athafnir mannsins við loftslagsbreytingar séu einfeldningsleg og að myndin skekkist vegna þess að við séum nú í tiltölulega hlýjum hluta ísaldar sem hafi varað í meira en 8.000 ár. Hann segir að gögnin sem eigi að sýna að loftslagskerfið kunni að komast yfir eitthvert ákveðið stig sem leiði til hraðrar hækkunar hitastigs séu ekki sannfærandi. „Með því að einblína á koltvísýring sem áhrifavald loftslagsbreytinga er horft fram hjá mikilvægi vatnsgufu sem gróðurhúsalofttegundar og þýðingu hringrásar vatnsins við að stýra hitastigi loftslagskerfisins,“ segir Kininmonth. Vatnsgufan er að hans sögn áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringurinn og myndun og eyðing skýja hefur meiri áhrif á loftslagið.
Loftslagið er flókið kerfi sem færir til orku og jafnar út mikla sólargeisla um miðbaug og minni við pólana. „Þau tölvulíkön sem til eru ráða ekki með fullnægjandi hætti við að endurspegla þetta mikilvæga orkuferli, sem setur alvarlegar spurningar við getu þeirra til að spá fyrir um loftslag framtíðarinnar,“ segir Kininmonth.
Að hans sögn verðum við í framtíðinni að laga okkur að náttúrulegum sveiflum í loftslagi og hann segir það ímyndun að hættulegir atburðir í loftslagi séu nýir af nálinni og að hægt sé að koma í veg fyrir þá með því að draga úr útblæstri koltvísýrings. Aukin eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti, svo sem bensíni, muni hækka verðið á því og minnka aðgengið og Kininmonth fagnar bættri orkunýtingu almennings og að leitað sé leiða til finna nýjar orkulindir aðrar en jarðefnaeldsneyti. Hann er hins vegar ekki hrifinn af því að reyna að hraða því um of að draga úr útstreymi koltvísýrings til að ná markmiðum Kyoto samþykktarinnar, þar sem slíkar aðgerðir gætu spillt orkumörkuðum og haft slæm efnahagsleg og félagsleg áhrif. Þessi viðhorf Kininmonths fara ágætlega saman við þær hugmyndir sem búa að baki samkomulagi Ástralíu, Bandaríkjanna og nokkurra Asíuþjóða frá því í fyrra um að leggja áherslu á að miðla og bæta það sem kallað er hrein tækni. Ástralía er að velta fyrir sér að setja 100 milljónir dala í sjóð til að efla notkun hreinnar tækni í Kína. Einnig er gert ráð fyrir að Bandaríkin – sem vinsælt er að gagnrýna fyrir að vilja ekkert leggja af mörkum í loftslagsmálum – muni einnig leggja mikið af mörkum í þessu efni, eins og greint er frá í fyrrnefndri helgarútgáfu The Australian.