Þau eru svo mörg að þau eru ekki alltaf stórbrotin tilefnin sem Morgunblaðið finnur sér til að stuðla að opinberri forsjá og auknum opinberum útgjöldum. Í Reykjavíkurbréfi um síðustu helgi hneykslaðist blaðið mjög á því að frambjóðendur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna kynni sig með auglýsingum og þeir safni fé meðal stuðningsmanna sinna til að greiða fyrir auglýsingar, bæklinga og aðra kynningu.
Ráðið sem blaðið býður landsmönnum öllum er auðvitað opinber forsjá þessara mála.
Kostnaður við almennar kosningar er greiddur úr almannasjóðum eins og vera ber. Nú þegar fá stjórnmálaflokkarnir umtalsverða fjármuni úr opinberum sjóðum til starfsemi sinnar. Hver eru rökin fyrir því, að það geti ekki átt við um meira og minna allan kostnað, sem samstaða getur orðið um varðandi lýðræðislegar kosningar, hvort sem um er að ræða prófkjör eða almennar kosningar? |
Morgunblaðinu ofbýður kostnaðurinn í prófkjörum þó ekki meir en svo að flestar auglýsingarnar birtast í Morgunblaðinu sjálfu. Morgunblaðið hefur sum sé ekki áhyggjur af því að auglýsingarnar séu birtar heldur að þær séu greiddar með frjálsum framlögum en ekki peningum skattborgaranna.
En hvað er það sem vakir fyrir Morgunblaðinu með þessum málflutningi? Jú það sjá það allir að áhrif blaðsins fara sífellt minnkandi. Með auglýsingum og markvissri kynningu í ýmsum miðlum geta frambjóðendur nú náð góðum árangri í kosningum og prófkjörum án stuðnings Morgunblaðsins. Blaðið saknar eðlilega þeirra tíma þegar blaðið hafði mikil áhrif á afdrif manna í stjórnmálum.
Og það er einmitt það sem mundi gerast ef sett væru boð og bönn um framlög til frambjóðenda. Áhrif fjölmiðla eins og Morgunblaðsins mundu vitanlega aukast til muna ef frambjóðendur gætu ekki kynnt sig á sinn hátt með auglýsingum. Við slíkar aðstæður opinberrar forsjár og skömmtunar gæti það til að mynda riðið baggamuninn fyrir einstaka frambjóðendur að fá forsíðumynd og glæsiviðtal við sig í einhverju fylgiblaði Morgunblaðsins. Í haust kaus blaðið að veita þremur væntanlegum frambjóðendum í prófkjörum tveggja stjórnmálaflokka vegna borgarstjórnarkosninganna slík viðhafnarviðtöl upp úr þurru. Þessi viðtöl voru auðvitað afar góð kynning fyrir viðkomandi og hefðu verið ómetanleg ef aðrir frambjóðendur, sem ekki eru í slíkri náð hjá ritstjórn blaðsins, mættu ekki kynna sig með sínum hætti.
Staðreyndin er auðvitað sú að ef takmarkanir verða settar með lögum á kynningu frambjóðenda, að ekki sé nú minnst á þá mergjuðu hugmynd að prófkjörskandídötum sé skammtaður opinber styrkur sem þeir megi náðarsamlegast nota til að kynna sig, þá aukast áhrif og slagkraftur aðila á borð við Morgunblaðið. Það er ekki stórmannlegt af Morgunblaðinu að sigla undir flaggi lýðræðisumræðu með þessa sérhagsmunagæslu sína.
Aðrir frambjóðendur sem myndu njóta slíkra reglna eru þeir sem liggja á fleti fyrir; starfandi stjórnmálamenn sem eru látlaust á skjánum og þurfa lítt að kynna sig með öðrum hætti. Reglur af þessu tagi mundu einnig gagnast þeim sem eru í náðinni hjá hagsmunasamtökum, eins og stéttarfélögum með nauðungaraðild, en eitt þeirra er nýbúið að efna til milljónakynningar á þremur stjórnmálmönnum undir yfirskyni jafnréttisbaráttu.
Lýðræðið þarf ekki á því að halda að þeir stjórnmálamenn sem eru þaulsetnir, málpípur hagsmunasamtaka eða innundir á ritstjórn Morgunblaðsins fái sérstaka vernd gegn samkeppni.