Dæmigerð vitleysisumræða hefur farið fram í fréttatímum undanfarin kvöld. Það hefur nefnilega „heyrst af fyrirtækjum sem ætla ekki að greiða þeim konum full laun sem tóku sér frí úr vinnu á kvennafrídaginn“. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur hefur meira að segja verið í fréttum og talið það vera siðferðislega skyldu fyrirtækjanna að borga starfsfólkinu fyrir að leggja niður störf og fara í bæinn – og geta menn velt fyrir sér hvort aðrar kröfugerðir sem félagið gerir undir hans formennsku eru byggðar á svipuðum rökum. Hvernig er hægt að telja það sérstakt réttindamál að fá greitt fyrir það að leggja niður störf? Segjum nú til gamans að bæjarferð kvennanna hafi verið eðlileg og rökræn aðgerð, rökstudd með staðreyndum en ekki upphrópunum ímyndun og tilfinningu; að málstaðurinn hafi einfaldlega verið góður. En hverju myndi það breyta? Geta menn tekið sér launuð frí að vild til þess að fara á fundi um hugðarefni sín, bara ef þau eru nógu góð?
En auðvitað er það dæmigert að þær sem unnu bara til tvö vilji fá sömu laun og þeir sem voru til fimm. Upphrópaðar tölur um launamun kynjanna eru fundnar án þess að horft sé til mismunandi vinnutíma og vinnuframlags, og þær sem eru vanar að heimta sömu laun fyrir mismunandi vinnuframlag, þær skilja auðvitað ekkert í því að launin breytist við það að þær taki sér frí til að fara á fund.
Og fyrst talað var um Verslunarmannafélag Reykjavíkur, þetta félag sem einu sinni var hugsað fyrir hefðbundna kjarabaráttu verslunarfólks en hefur á síðustu misserum aðallega sinnt pólitískum rétttrúnaði hálaunastétta, þá má rifja upp að félagið stóð á dögunum fyrir mikilli auglýsingaherferð þar sem birtar voru myndir af fjórum þekktum einstaklingum, og mátti við fyrstu sýn ætla að fólkið hefði allt skipt um kyn, sem sumir munu raunar telja að sé hægt. Erindi auglýsinganna var það, að kynferði einstaklingsins ætti ekki að skipta máli, heldur skyldi hver og einn metinn eftir öðrum eigin verðleikum. Tvær stjórnmálakonur voru fengnar til að sitja fyrir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Er það skakkt munað, en hefur Ingibjörg Sólrún ekki ítrekað beitt kynferði sínu sem rökstuðningi fyrir því að fólk eigi að styðja sig til ýmissa embætta? Var borgarbúum ekki sagt að það væri kominn tími til að kona yrði á ný borgarstjóri, þegar hún sóttist eftir því embætti? Og þegar hún reyndi að verða forsætisráðherra, var þá ekki sami söngur sunginn? Gengu kosningaauglýsingar Samfylkingarinnar ekki út á gráar myndir af fyrri forsætisráðherrum og svo birtist Ingibjörg í lit? Var ekki sífellt hamrað á því að nú væri færi á að gera konu að forsætisráðherra? Og sat Ingibjörg ekki bæði í borgarstjórn og á Alþingi fyrir flokk sem var hreinlega lokaður öðru kyninu?
Og svo fær Verslunarmannafélag Reykjavíkur hana til að auglýsa það að kynferði eigi ekki að skipta máli.
Um næstu helgi verða haldin prófkjör víða um land. Sjálfstæðismenn í Reykjavík og Samfylkingarmenn í Hafnarfirði og á Akureyri munu velja frambjóðendur vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. Að vísu er reynslan af Samfylkingarlýðræði slík að úrslitum prófkjörs er iðulega breytt þar á bæ, en félagsmenn munu að minnsta kosti reyna að velja fyrir sitt leyti. En hvað um það, prófkjör verða nú um helgina og mikill áhugi að minnsta kosti í Reykjavík fyrir úrslitunum. Oft er sagt að frambjóðendur í slíkum prófkjörum séu allir eins og litlu skipti hver komist að og hver ekki. Ekki þarf það þó að vera að öllu leyti rétt, því auðvitað skera sumir sig úr á ýmsum sviðum. Vefþjóðviljinn vill leyfa sér að vekja athygli á því, að í einu rándýru rétttrúnaðarmáli, er afstaða borgarfulltrúanna í Reykjavík ekki sú sama, en Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað barist opinberlega gegn þeirri dýru byggingu tónlistarhúss sem boðuð hefur verið í höfuðborginni og var eini borgarfulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn henni í borgarstjórn. Sú barátta hans má vera öðrum borgarfulltrúum og alþingismönnum gott fordæmi enda hljómar hún sem tónlist í eyrum skattgreiðenda. Og jafn maklegt er það, að vakin sé athygli á þessari baráttu Kjartans, honum til sóma, nú þegar prófkjör fer í hönd.