Fimmtudagur 15. september 2005

258. tbl. 9. árg.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að úrslit forsetakosninganna séu áfall fyrir lýðræðið. Niðurstaðan hljóti að leiða til umræðu um breytingar á fyrirkomulagi kosninganna og talningar atkvæða, þannig að í framtíðinni verði ekki mögulegt að verða forseti með færri atkvæði en sá sem tapar.
Morgunblaðið, 15. desember 2000.

Áfall fyrir lýðræðið, ekkert minna, þótti Össuri Skarphéðinssyni þegar úrslit í bandarískum forsetakosningum réðust, eins og reglur kváðu á um, af þeim ríkjum þar sem frambjóðendur sigruðu en ekki samanlögðum atkvæðatölum þeirra. Slík niðurstaða á bara ekki að vera möguleg, þykir Össuri.

Á mánudaginn var kosið til norska stórþingsins. Borgaraflokkarnir fengu um tuttugu þúsund atkvæðum fleiri en vinstriflokkarnir, sem þó náðu meirihluta, vegna kosningareglnanna. Um kosningaúrslitin hefur Össur Skarphéðinsson nú skrifað langa grein og segir þar meðal annars, og leyna áhyggjur hans af lýðræðinu sér ekki: „Áhættan borgaði sig. Þeim tókst að fella ríkisstjórnina miðað við stöðuna á miðnætti. Af þessu geta íslenskir vinstri miðju flokkar lært. Verkamannaflokkurinn hefur sannarlega ástæðu til að fagna. Honum tókst með hinum flokkunum tveimur að fella ríkisstjórnina – og bæta við sig 8,3%. Jafnaðarmenn fóru úr 24,3% í 32,6%.“

Grein Össurar er löng og full af hugleiðingum hans um hvað „Jens Stoltenberg og félagar mínir í Verkamannaflokknum“ hafi gert og hvort hægt sé að apa það eftir þeim. Sem er auðvitað svo spennandi viðfangsefni að Össur bara gleymir því alveg hvílíkt áfall þingmeirihluti Stoltenbergs er fyrir lýðræðið.

Ígær var tilkynnt um ráðningu nýs forstjóra eftirlitsstofnunar Efta, en hún hefur það hlutverk með höndum að grafa undan fullveldi Efta-ríkjanna. Starfa menn þar að því markmiði í góðu samstarfi við Efta-dómstólinn og við stuðning og mikla velvild Evrópudómstólsins, enda er „þróunin“ í Evrópu mörgum á þessum bæjum mjög hugleikin. En já, nýi forstjórinn, hann er Norðmaður og heitir Bull.

Mikið fer vel á því.