Þ að er hálf aumkunarlegt að fylgjast með vandræðaganginum í Evrópusambandinu þessa dagana. Ekki er laust við að jafnvel þeir sem lítt eru hrifnir af ófreskjunni, finni til samúðar með pólitískri elítu sambandsins, sem ekki veit sitt rjúkandi ráð. Það er þó alger óþarfi. Eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum, hefur allt verið upp í loft í sambandinu og deilur milli forystumanna aðildarríkja verið áberandi. Vonbrigðin með framgang mála hafa kallað fram ýmsa galla sambandsins og það versta fram í forystumönnunum. Hafa þeir ekki getað stillt sig um að láta ósætti sitt verða óvenju opinbert.
„Í fyrra tilfellinu voru Danir látnir kjósa um lítið breyttan samning og í hinu síðara, nú þá voru menn bara látnir kjósa aftur um óbreyttan samning.“ |
En af hverju skyldi fólk í Hollandi og Frakklandi hafa hafnað stjórnarskránni, og af hverju er útlit fyrir að fleiri þjóðir muni fylgja í kjölfarið, þrátt fyrir að mikill meirihluti pólitískrar elítu aðildarríkja sambandsins haldi ekki vatni yfir henni, svo frábær sem hún er? Pólitíska elítan í sambandinu var ekki lengi að greina ástæður höfnunarinnar. Fólkið í þessum löndum hefur ekkert á móti ESB sem slíku. Nei, það er að hafna ríkisstjórnum í löndum sínum, bágu efnahagsástandi, hugsanlegri aðild Tyrklands eða einhverju öðru óljósu. Bara ekki hugmyndinni að ESB eða þróun þess. Ótrúlegt er hversu margir, og þá sérstaklega fjölmiðlar, hafa gleypt þessi rök hrá.
Auðvitað var stærstur hluti kjósenda að hafna stefnu hinnar pólitísku elítu, stjórnarskránni, skorti á lýðræði, þróun sambandsins og/eða hugmyndinni sem að baki sambandinu liggur. Kjósendur höfnuðu því að færa enn fleiri svið og enn meira vald til fjarlægrar og ólýðræðislegrar stofnunar sem að mestu leyti er stjórnað af embættismönnum sem ekki eru kosnir og lítið eða ekkert lýðræðislegt aðhald er með. Þeir höfnuðu jafnframt að færa vald til stofnunar sem þeir hafa takmarkaða þekkingu og skilning á. Kjósendur létu í ljós þá skoðun að ekki bæri að svipta þjóðþingin meiri völdum. Í áraraðir hafa kannanir endurtekið sýnt fram á að borgarar sambandsins hafa mjög takmarkaða þekkingu og skilning á ESB, ferlum þess og uppbyggingu og samskiptum og verkaskiptum þjóðríkjanna og sambandsins. Kannanir hafa jafnframt sýnt fram á að efasemdir borgaranna um ágæti sambandsins eru oftast langtum meiri en pólitískrar elítu sambandsins og aðildarríkja þess. Það skyldi þó aldrei vera ástæða þess að fæst ríkin láta nokkurn tíma kjósa um nokkurn skapaðan hlut er snertir sambandið, jafnvel þótt verið sé að færa mikinn hluta fullveldis ríkjanna til sambandsins!
Þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar hafi hafnað stjórnarskránni og útlit sé fyrir að fleiri þjóðir muni gera það, fái þær að kjósa um hana, þá skal fara varlega í að dæma stjórnarskrána dauða eða fagna endalokum sambandsins. ESB-elítan mun væntanlega nú sem hingað til finna leiðir til að troða vilja sínum í gegn. Menn létu það nú ekki á sig fá þó Danir höfnuðu Maastrich-samningnum á sínum tíma eða Írar Nice-samningnum. Í fyrra tilfellinu voru Danir látnir kjósa um lítið breyttan samning og í hinu síðara, nú þá voru menn bara látnir kjósa aftur um óbreyttan samning.
Elítan í sambandinu mun væntanlega finna leiðir til að fá sínu framgengt, enda hafa ummæli gefið það til kynna. Er engan bilbug á mönnum að finna og tala þeir um að ekki verði snúið við og sambandið muni halda áfram á sömu braut og verið hefur. Ekkert mun sum sé koma í veg fyrir frekari samruna og afsal valds til Brussel.
Anders Fogh Rasmussen og fleiri leiðtogar ESB-ríkja eiga erfitt með að sætta sig við úrslit kosninga í Frakklandi og Hollandi um stjórnarskrána. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org. |
Óhugnanleg birtingarmynd veruleikafirringar pólitískrar elítu sambandsins er að margir forystumenn sambandsins og aðildarríkja þess vilja að staðfestingarferli stjórnarskrárinnar haldi áfram, þrátt fyrir að augljóslega sé kveðið á um það að öll ríki sambandsins verði að samþykkja hana eigi hún að öðlast gildi. Nú hafa tvö ríki hafnað henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn berja sér á brjóst og láta sem lítið sé að, ekkert sem ekki verði kippt í liðinn á tiltölulega einfaldan hátt. Þannig virðist Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ætla að láta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána fara fram, eins og eitthvað sé að kjósa um. Gerhard Schröder hefur hvatt til þess að staðfestingarferlinu hjá aðildarríkjunum verði haldið til streitu. Jacques Chiraq hefur sagt að sannfæra þurfi Evrópubúa um það hversu frábært verkefni ESB sé og að það sé hið eina sem tryggt geti frið, lýðræði og mannréttindi á meginlandinu. Það munar ekki um það, og augljóst að öll alþýða manna hefur ekki hugmynd um hvað henni er fyrir bestu. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sagði á dögunum, á meðan hann sat enn í forsæti ESB, að ekki stæði til að breyta neinu í texta stjórnarskrárinnar. Hann sagði jafnframt að nokkur sátt ríkti meðal leiðtoga aðildarríkjanna um að lengja bæri frest sem aðildarríki hafa til að samþykkja sáttmálann. Þannig gæfist tími til íhugunar, útskýringa og umræðu. Með öðrum orðum, meiri tími til plotts pólitísku elítunnar í reykmettuðum bakherbergjum til að brugga ráð til að koma plagginu í gegn.
Hvað gengur mönnum til með að ætla að halda staðfestingarferlinu til streitu? Að troða vilja pólitísku elítunnar upp á fólk auðvitað, eins og venjulega. Þannig eru sem flest ríkin látin samþykkja plaggið til þess að geta aukið þrýstinginn á þær þjóðir sem hafa vogað sér að hafna því. Annað hvort að láta kjósa um stjórnarskrána með þýðingarlitlum málamyndaundanþágum, eða það sem líklegra er, stilla þeim þjóðum sem hafnað hafa samkomulaginu upp við vegg með rökunum: „Sjáið til kæru evrópsku bræður. Nú eru svo og svo mörg lönd búin að samþykkja stjórnarskrána og það eru nú hvorki meira né minna en svo og svo mörg prósent borgara ESB. Við getum því miður ekki látið ykkur stöðva eðlilega þróun sambandsins, þróun sem meirihluti íbúanna vill. Því verðið þið bara að éta það sem úti frýs, samþykkja eða segja ykkur úr ESB“. Lýðræðið ofar öllu. Í þau fáu skipti sem einhver aðildarríkja sambandsins hafa látið kjósa um eitthvað er snertir sambandið, hefur þessum rökum verið haldið mjög á lofti og verður svo áfram.
Takist pólitísku elítunni ætlunarverk sitt hefur hún slegið tvær flugur í einu höggi. Komið vilja sínum í gegn og gert það með lýðræðislegu yfirbragði. En með því mun hún ganga á skjön við vilja meirihluta margra og kannski flestra aðildarríkjanna.
Það er örlítil vonarglæta að takast muni að breyta örlítið hugsunarhættinum meðal pólitískrar elítu ESB. Nú hefur Bretland tekið við formennsku í ESB og gefa ummæli Tony Blairs vísbendingu um að einn leiðtogi aðildarríkis að minnsta kosti átti sig á að ekki sé allt með felldu í uppbyggingu og ákvarðanatökuferli sambandsins. Hann sagði meðal annars nýlega á fundi Evrópuþingsins, í kjölfar úrslita þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Hollandi og Frakklandi, að endurskilgreina þurfi ESB í grundvallaratriðum.
Þegar við bætist að ríkisstjórn Gerhards Schröders nýtur ekki lengur stuðnings meirihluta á þýska þinginu og staða Jacques Chiracs hefur veikst, en þeir hafa verið í öflugu bandalagi í ESB, er möguleiki á að Bretum takist að leiða nægilega stóran hóp ríkja til að knýja fram einhverjar breytingar. Því miður óttast þó Vefþjóðviljinn að það sé óskhyggja ein.