Föstudagur 1. júlí 2005

182. tbl. 9. árg.

R

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs hefur sett fram þá „bráðsnjöllu“ hugmynd að farið verði dýpra í vasa skattgreiðenda til að byggja þetta hús.

íkið kæmi auðvitað að þessu,“ hefur Morgunblaðið eftir Gunnari I. Birgissyni bæjarstjóra Kópavogs um hugmynd hans þess efnis að þar í bæ rísi nýtt óperuhús. Einnig er haft eftir Gunnari að mikið sé rætt um nýtt óperuhús en lítið framkvæmt. Gunnar virðist hins vegar lítið fyrir að bíða með framkvæmdir og vill drífa í þessu, enda húsið hræbillegt, kostar ekki nema 1.500 til 2.000 milljónir króna að hans mati. Af þessari nýju hugmynd Gunnars I. Birgissonar má draga þá ályktun að hann hafi ekki miklar áhyggjur af að seilast í vasa skattgreiðenda, enda eru það þeir sem  hann á við þegar hann segir að „ríkið kæmi auðvitað að þessu“. Og hann á einnig við skattgreiðendur – í sumum tilvikum þá sömu – þegar hann segir að Kópavogsbær „komi að byggingu hússins að einhverju leyti“.

Gunnar hefur eignast að minnsta kosti einn stuðningsmann í þessari viðleitni sinni til að auka eyðslu almannafjár, en sá stuðningur kemur að vísu ekki úr óvæntri átt. Óperustjóri Íslensku óperunnar segir að sér lítist vel á að reisa slíkt óperuhús í Kópavogi og Morgunblaðið hefur eftir honum að hann telji „hugmyndina bráðsnjalla, bæði fyrir óperustarf á Íslandi og fyrir Kópavogsbæ“. Vera má að hugmyndin sé góð fyrir óperustarfið þó að það sé alls ekki augljóst. Ólíklegra er að hugmyndin komi sér vel fyrir Kópavogsbæ, enda munu íbúar bæjarins verða neyddir til að láta fé af hendi rakna verði af byggingunni – og þeir hafa líklega þegar verið látnir greiða fyrir hugmyndavinnuna. En óperustjórinn sleppir því að nefna þann hóp sem á mestra hagsmuna að gæta í málinu og það eru skattgreiðendur. Vandinn er hins vegar sá að þó að hagsmunir þessa hóps séu miklir, þá eru þeir dreifðir og fyrir hvern og einn er ekki um nægilega háa fjárhæð að ræða til að hann  nenni að eyða púðri í að koma í veg fyrir eyðsluna.

Hið sama gildir um flestar aðrar opinberar framkvæmdir af þessu tagi. Hagsmunir skattgreiðenda eru dreifðir og litlir fyrir hvern og einn, en hagsmunir þeirra sem skipa sérhagsmunahópana eru ríkir. Hver og einn sem starfar við óperuna eða hefur sérstakan áhuga á óperum hefur mikla hagsmuni af því að byggt sé óperuhús og mun ef til vill þakka þeim stjórnmálamönnum sem þrýsta á um að það sé gert. Skattgreiðendurnir verða ekki varir við það í útsvarinu sínu eða tekjuskattinum að nokkrar krónur hafi bæst við um hver mánaðamót vegna byggingarinnar og munu líklega gleyma því að refsa þeim stjórnmálamönnum sem bera ábyrgð á skattahækkuninni. En þó að skattahækkunin sé lítil við hverja hugmynd til útgjaldaaukningar sem fram er sett er hún engu að síður raunveruleg. Og þegar jafn margar „bráðsnjallar“ útgjaldahugmyndir eru settar fram og raun ber vitni safnast krónurnar saman og verða að þungri skattbyrði. Skattgreiðendur ættu þess vegna að reyna að venja sig á að gleyma því ekki hverjir það eru sem setja fram hinar „bráðsnjöllu“ hugmyndir um hærri skatta.