Fimmtudagur 23. júní 2005

174. tbl. 9. árg.

S ennilega þætti nokkuð einkennilegt ef stjórnvöld ákvæðu að verja töluverðu opinberu fé til mannúðar- og líknarmála, en fælu hins vegar forstjórum nokkurra stórra fyrirtækja að ákveða bæði upphæðir og styrkþega. Að minnsta kosti myndi Vefþjóðviljanum ekki lítast vel á slíka ráðstöfun. Með sama hætti er blaðið andvígt þeim hugmyndum að fyrirtækjum verði veittur afsláttur af sköttum í samhengi við framlög þeirra til slíkra mála.

Í þessu samhengi má horfa fram hjá þeirri spurningu hvort réttlætanlegt sé að nota opinbert fé til slíkra styrkja. Hér snýst málið um það hverjir ráðstafi opinberu fé. Sé það réttlætanlegt að taka fé með valdi af skattgreiðendum og deila því út til einhverra, þá er eðlilegt að það séu lýðræðislega kjörnir valdhafar, eða þá einhverjir sem lögum samkvæmt starfa í þeirra umboði, sem taka slíka ákvörðun. Það vald á ekki að færa til fyrirtækja eða einstaklinga úti í bæ, þó þau greiði háa skatta. Sá sem fær skattaafslátt vegna framlaga sinna til einhvers málefnis – með öðrum orðum: þarf að greiða lægra framlag til ríkisins vegna framlags sem hann ákvað að greiða einhverjum öðrum – hefur þar með einfaldlega fengið úthlutunarvald yfir skattfé.

Undanþágur í skattalögum eiga að vera sem fæstar. Vitaskuld er Vefþjóðviljinn þeirrar skoðunar að skattar eigi að vera sem allra lægstir; að ekki skuli innheimtir aðrir skattar en þeir sem hrein nauðsyn sé á. Skattalögin eigi hins vegar að gilda jafnt um alla. Blaðið telur að lækka eigi skatta á borgurunum, en gera það almennt á öllum þeim sem greiða skatta. Það eigi hins vegar ekki að vera með einhvers konar afslátt fyrir þá sem eru á sjó, skulda íbúðina sína eða gefa til líknarfélaga.

Og þegar skattar hafa verið lækkaðir, þá eiga skattgreiðendur vitanlega auðveldara með að gefa til góðra mála.

A f hverju hefur enginn haldið því fram að Reykjavíkurborg sé á móti því að ungt fólk fræði annað ungt fólk um skaðsemi fíkniefna? Á dögunum var sagt frá því að Jafningjafræðslan yrði að draga verulega saman seglin þar sem Reykjavíkurborg hefði dregið úr styrkjum til starfseminnar. Samt hélt enginn því fram að borgaryfirvöld væru í einhverri herferð, eða hefndarhug, í garð Jafningjafræðslunnar. En hvernig var það þegar styrkir ríkisins til Mannréttindaskrifstofu Íslands lækkuðu niður í rúmlega tvær milljónir króna á dögunum? Var því þá ekki strax haldið fram að stjórnvöld væru að hefna fyrir einhver álit sem þessi skrifstofa hefði sent frá sér? Datt þá nokkrum manni í hug að opinber framlög til mála breytast oft milli ára án þess að nokkuð stórvægilegt sé þar að baki. Enda er eins gott að hið opinbera sé frjálst að því að breyta styrkjum sínum frá ári til árs. Raunar ættu styrkjaleitendur að fagna því en ekki fordæma það. Hvernig ætla nýir menn að afla sér styrkja ef styrkveitendur lenda í þeirri stöðu að styrkur skuli vera til eilífðar en ekki eins árs?

Af Mannréttindaskrifstofunni og opinberum styrkjum til hennar er það svo að frétta að á dögunum var henni veitt tæplega hálf milljón króna úr Þýðingarsjóði. Fréttamönnum þótti það nú ekki mjög áhugavert.