Helgarsprokið 5. júní 2005

156. tbl. 9. árg.

Loksins litu krakkarnir upp úr leikjatölvunum og snakkpokunum. Loksins fóru þau út. Loksins fóru þau út að hreyfa sig. Loksins fóru þau út að ólmast og hamast. Hvað er eiginlega búið að segja margar fréttir af feitu börnunum í vetur? Og þau sem ekki voru of feit voru á Rítalíni. Hvað er búið að segja okkur að barnaspikið sé mikið heilbrigðisvandamál? Hvað er búið að efna til margra ríkisstyrktra átaksverkefna um aukna hreyfingu? Hvað ætli Morgunblaðið og fleiri umvöndunarfulltrúar þjóðarinnar séu búnir að fjalla oft um þetta mesta heilbrigðisvandamál 21. aldar?

Loksins þegar krakkarnir verða við kallinu og flykkjast út að leika sér þá kemur tafarlaust forsíðufrétt í Morgunblaðinu. „Trampólínæði grípur um sig. Gríðarleg sala hefur verið á trampólínum í vor og sumar. Margir sleppa þó öryggisnetinu og segir Friðrik Sigurbergsson, sérfræðingur á slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss að með fjölgun trampólína fjölgi trampólínslysum: „Við höfum fengið fjöldann allan af börnum og einhverja helgina komu mörg börn í einu sem höfðu meitt sig á trampólíni.““

Í frétt inn í blaðinu segir svo í millifyrirsögn að „beinbrot og lífshætta“ fylgi trampólínum. Til vitnis er kallaður sérfræðingur á háskólasjúkrahúsi sem segir að eftir að menn fóru að nota trampólín þá – já hafi slysum vegna notkunar trampólína fjölgað.

Það er erfitt að hrekja þessa kenningu um að aukin notkun trampólína leiði til fleiri slysa tengdum notkun trampólína og svo sem engin ástæða til að efast um réttmæti hennar. Hún á líka við um skíði, skauta, trommusett og líklega einnig helstu öryggistæki á heimilum og vinnustöðum. Það er hægt að slasa sig á öllu og því gefur auga leið að aukin notkun á hverju sem er leiðir til fleiri slysa. Hvað eru öryggispúðar í bílum búnir að slá marga kalda að ástæðulausu síðan þeir urðu algengir? Aha, aukin notkun öryggispúða leiðir til…

Sjálfsagt er líklegra að krakkarnir slasi sig á trampólíni en við sjónvarpið. En er ekki til nokkurs unnið að þau skuli farin að hrista af sér spikið? Það hlýtur að koma eitthvað jákvætt á móti ef það er satt sem sagt er að krakkarnir séu of feitir og þurfi að hreyfa sig meira. En kannski eru það bara krakkarnir sem voru hvort eð er að hreyfa sig í öðrum íþróttum sem nota trampólínið. Ætti þá ekki slysum í þeim íþróttum að fækka á móti?

Auðvitað var ekki sagt frá hugsanlegum jákvæðum afleiðingum trampólínæðisins í fréttinni í Morgunblaðinu enda er alltaf sama tilhneigingin að mála skrattann á vegginn. Forsíður blaða og fréttayfirlit útvarpsstöðva hafa jafnan að geyma hræðsluáróður af einhverju tagi. Þannig má ná athygli lesenda og hlustenda. Svo er einnig freistandi fyrir ýmsar stofnanir ríkisins, sem vilja minna fagráðherrann sinn og fjárlaganefnd á sig, að koma hræðsluáróðri í fjölmiðla. Menn leggja ekki stofnun niður sem er full af sérfræðingum sem hafa eftirlit með því að menn fari sér ekki að voða við leik og störf. Yfirleitt fylgir hræðslukenningunum svo að rannsaka þurfi málið betur – það er að segja að stofnunin þurfi aukið fjárframlag til að geta skorið úr um hvort ungir karlmenn reimi skóna sína svo fast að þeim sé hættara en ella við vélindabakflæði.