Ídag er verið að kjósa í Skorradalshreppi. Í annað sinn á rúmum mánuði og auðvitað um sameiningu sveitarfélaga. Félagsmálaráðuneytið er að sjá hvort því tekst ekki einhvern tíma að hafa íbúana undir. Fyrir fimm vikum var kosið um sameiningu fimm sveitarfélaga á Vesturlandi; Kolbeinsstaðahrepps, Hvítársíðuhrepps, Skorradalshrepps, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar, en tvö síðarnefndu sveitarfélögin voru reyndar nýorðin til uppúr sameinuðum eldri hreppum. Kosning þessi fór þannig að sameining sveitarfélaganna fimm var felld í Skorradalshreppi en samþykkt í hinum fjórum. Í þessum fjórum sveitarfélögum voru það þó undantekningarlaust minnihluti atkvæðisbærra manna sem samþykkti sameininguna og sums staðar var niðurstaðan mjög tæp, einkum í Kolbeinsstaðahreppi þar sem munurinn varð aðeins 3 atkvæði. Í Skorradalshreppi var sameining felld með 62,2 % atkvæða gegn 37,8 % atkvæða.
Og hverjir ætli séu nú látnir kjósa aftur? Kolbeinsstaðahreppur kannski, þar sem munaði ekki nema þremur atkvæðum? Nei nei, Skorrdælingar skulu kjósa aftur, fyrst þeir gátu ekki komið með rétta niðurstöðu í fyrstu atrennu. Og ekki nóg með það. Jafnvel þó að Skorrdælingar felli aftur, þá verða hin sveitarfélögin fjögur sameinuð samt. Sveitarfélög sem hafa samþykkt, og sum mjög naumlega, að sameinast tilteknum fjórum sveitarfélögum, þau verða án nýrrar atkvæðagreiðslu sameinuð þremur af þessum fjórum. Af hverju má ekki leyfa fólkinu að kjósa um hvort það vilji það? Ætli það gæti nú ekki verið að einhverjir þeirra, sem ákváðu að greiða atkvæði með því að þeirra sveitarfélag skærist ekki úr leik, hefðu nú kannski kosið öðruvísi ef þeir hefðu vitað að eitt sveitarfélag úr hópnum yrði ekki með? Hvernig ætli að farið hefði ef á kjörseðlinum hefði verið viðbótarspurning um það hvort menn samþykktu jafnframt sameiningu ef eitthvert hinna yrði ekki með? Ætli félagsmálaráðuneytið vilji nokkuð vita það?
Það er alltaf sama sagan með sameiningu sveitarfélaga. Það er alltaf beitt Evrópusambandsaðferðinni. Allt gert til þess að knýja „þróunina“ áfram; íbúunum líðst að segja já en ekki nei. Fyrr í vetur rakti Vefþjóðviljinn hvernig farið var að við myndun sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, og sú lýsing er dæmigerð fyrir Brusselshugarfarið hjá sameiningarsinnum. Og auðvitað hafa margir áttað sig á þeim aðferðum sem beitt er. Í þeim tilvikum þar sem sameining er þó samþykkt, þá er mjög sennilegt að hjá mörgum ráði einfaldlega sú trú að sameining verði þvinguð ofan í fólk nauðugt viljugt og þá sé skárra að ráða einhverju um það hvernig hún verður en að bíða endanlegra tilskipana félagsmálaráðuneytisins.
Í vikunni voru Árna Magnússyni félagsmálaráðherra afhentar undirskriftir 75 % íbúa í Svarfaðardalshreppi heitnum, sem nýlega rann saman við Dalvíkurkaupstað. Íbúarnir vildu fá hreppinn sinn aftur. Árni tók það ekki í mál þar sem að það yrði „úr takti“ við það sem embættismennirnir hans vilja og þeir á skrifstofu Sambands sveitarfélaga. Fólk má vilja sameiningu en það má ekki vera á móti henni eða losna undan henni. Af hverju má fólkið ekki fá Svarfaðardalshreppinn sinn aftur? Hvað er með þessa embættismenn fyrir sunnan?
Og enginn þarf að láta sér detta í hug að sameining sveitarfélaga sé frá ráðherranum komin. Það er alveg ábyggilegt að það eru embættismenn félagsmálaráðuneytisins sem sannfæra ráðherra sína um að sameining sé framtíðin. Árni Magnússon sat í bæjarstjórn Hveragerðis áður en hann varð félagsmálaráðherra. Hvernig er það, var hann á fullu þá að berjast fyrir því að Hveragerði hyrfi inn í Selfoss? Afsakið, inn í Sveitarfélagið Árborg. Selfoss er ekki lengur til nema sem hverfi, skip og smáfoss í Jökulsá á Fjöllum.